Katrín hertogaynja af Cambrigde skein skært eins og stjarna á rauða dreglinum fyrir frumsýningu Bond-kvikmyndarinnar No Time To Die í Royal Albert Hall í London í gær. Það má með sanni segja að Katrín hafi stolið senunni en hún glæddist gylltum kjól.
Kjóllinn er eftir Jenny Packham en Katrín hefur reglulega leitað til hennar fyrir stóra viðburði. Við hinn gullfallega kjól var hún í beigelitum hælum og með stóra eyrnalokka. Hún var með hárið uppsett í fallegri greiðslu.
Vilhjálmur Bretaprins, eiginmaður Katrínar, fylgdi henni á frumsýninguna en hann klæddist klassískum smóking með þverslaufu. Faðir hans, Karl Bretaprins, var einnig með í för og eiginkona hans, Kamilla hertogaynja af Cornwall.
Auk kóngafólksins var fjöldi frægðarmenna úr bresku samfélagi á frumsýningunni. Stórleikarinn og James Bond sjálfur, Daniel Craig, var að sjálfsögðu viðstaddur. Rami Malek, sem einnig fer með hlutverk í kvikmyndinni, Léa Seydoux og Lashana Lynch. Knattspyrnumaðurinn og fyrirliði enska karlalandsliðsins í fótbolta, Harry Kane, lét einnig sjá sig. Systkinin Billie Eilish og Finneas O'Connell voru einnig viðstödd en þau sömdu titillag myndarinnar.