Eliza Reid forsetafrú Íslands var glæsileg þegar hún og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands tóku á móti Friðriki krónprinsi Danmerkur á Bessastöðum í gærkvöldi. Eliza blandaði saman eldri skyrtu við nýja íslenska hönnun en sjálfbærni var lykilþema kvöldsins.
Bláa skyrtan sem Eliza klæddist er frá Lafayette 148 og keypti Eliza hana í Kanada fyrir mörgum árum. Við skyrtuna var hún í gráum buxum frá íslenska merkinu Gracelandic. Við fötin var hún með íslenskt skart; hálsmen frá Orr og eyrnalokka frá Örnu Stjörnu.
Gracelandic hefur vakið athygli að undanförnu. Grace Achieng stofnaði merkið Gracelandic tíu árum eftir að hún flutti til Íslands. Hún fæddist og ólst upp í Kenýa. Í viðtali við mbl.is í sumar sagði hún frá því hvernig henni tókst að stofna eigið fatamerki en hún fékk ekki draumastarfið um leið og hún flutti til Íslands. Grace hefur sjálfbærni og velferð þeirra sem starfa með henni og umhverfið að leiðarljósi í framleiðslu Gracelandic.