Hótelerfinginn Paris Hilton og áhættufjárfestirinn Carter Reum gengu í það heilaga 11. nóvember síðastliðinn. Kjóllinn sem Paris Hilton klæddist þegar hún gekk að altarinu við hátíðlega athöfn var stórglæsilegur. Kjóllinn var hvítur síðkjóll, eins og hefðbundið er, og var hann allur þakinn hvítum blómum úr blúnduefni. Blómin náðu alveg frá úlnlið upp í háls og mynduðu þar með rúllukragahálsmál, svo kjóllinn var ekki fleginn. Sítt og langt slörið dróst á eftir öllu og léku hvítu blúndublómin einnig stórt hlutverk.
Tískurisinn Oscar De la Renta á heiðurinn af kjólnum en Paris Hilton sagði í samtali við tískublaðið Vogue að það hefði tekið marga mánuði að hanna hann og sauma. Þá sagðist hún einnig hafa haft þá hugmynd um kjólinn að hann yrði að vera ævintýralegur en tímalaus í senn. Þykir það hafa heppnast vel.
Hilton lét sér ekki nægja að vera í einum kjól á brúðkaupsdaginn heldur skipti hún alls þrisvar um útlit meðan á veislunni stóð.
Þegar komið var að því að stíga brúðarvalsinn ákvað Hilton að fara í annan hvítan síðkjól. Sá kjóll var örlítið léttari en hinn þar sem hann var opinn í axlir en ævintýralegt yfirbragðið naut sín enn.
Eftir dansinn fór hún í kjól sem var mun styttri en allir hinir. Sýndi Hilton bera leggi sína við fallegan hvítan kjólinn en hálsmál hans var flegið, axlir berar og svipuð blóm og voru á þeim fyrsta prýddu efri part kjólsins.
Síðast en ekki síst fór Hilton í enn einn síðkjólinn. Pallíettur og perlusaumur einkenndu kjólinn, sem Pamela Roland hannaði. Kjólinn var fleginn, sem gerði einstaklega mikið fyrir einfalt sniðið. Gólfsíð slá var hluti af kjólnum og voru perlur og pallíettur í aðalhlutverki og eins konar punkturinn yfir i-ið.
Brúðkaupið sjálft stóð yfir í þrjá daga og voru fyrirframákveðin þemu bundin við hvern og einn dag. Var því ekkert til sparað í kjólum og heildarútliti fyrir hvert þema.