Leigukjólar mun vinsælli nú en áður

mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristín Edda Óskarsdóttir, einn af stofnendum SPJARA, lumar á mörgum góðum umhverfisvænum leiðum til að upplifa jólin án þess að menga um of. Eitt af því sem hún mælir með er að leigja jólakjólinn. 

„Það er nóg að gera þessa dagana við að koma SPJARA-fataleigunni á laggirnar, en eftir að við opnuðum hafa viðtökurnar verið mjög góðar. Við erum á fyrstu stigum rekstursins og erum að þróa og bæta þjónustuna.Þess á milli pikka ég inn vel valin orð í mastersritgerðina sem ég er að vinna í hagnýtri félagslegri sálfræði,“ segir Kristín Edda en auk hennar eru það Patricia Anna Þormar og Sigríður Guðjónsdóttir sem standa að SPJARA. Þær hafa allar brennandi ástríðu fyrir því að gera umhverfisvæna tísku aðgengilega, einfalda og spennandi.

„Við trúum því að með því að bjóða fólki upp á kost sem er í raun jafn þægilegur og að kaupa sér föt á netinu getum við með einni leigu í einu dregið úr þessari ofneyslu á fötum sem er svo skaðleg fyrir umhverfið.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristín Edda segir úrvalið fjölbreytt af merkjavörum í SPJARA.

„Við erum aðallega með fatnað fyrir sparileg tilefni sem viðskiptavinir taka á leigu, sem er margfalt ódýrara og visvænna en að kaupa sér nýja flík. Það þarf enga skuldbindingu heldur getur fólk prófað sig áfram í stíl og jafnvel tekið áhættu. Að leigutíma loknum er flíkinni skilað og við sjáum um hreinsun og að koma henni aftur út í hringrásina.“

Hvernig ætlar þú að fata þig upp fyrir jólin?

„Ég ætla ekki að fata mig upp fyrir jólin. Ég ætla að leigja mér kjóla fyrir þau boð sem ég er að fara í á aðventunni. Ég hef augastað á nokkrum kjólum frá Stine Goya, Rodebjer og Isabel Marant.“

Hver eru þín uppáhaldstískumerki?

„Ég held upp á Stellu McCartney-stílinn þar sem litasamsetningar og gildin hennar höfða til mín. Mín uppáhaldsmerki og þau sem ég horfi mest til eru þau sem stuðla að sjálfbærari framleiðsluháttum og láta sig umhverfis- og félagsleg mál varða.

Malene Birger-vörumerkið er með tímalausar flíkur og einstaka stemningu að mínu mati. Svo er ég mikill aðdáandi KALDA-skómerkisins.

Þau merki sem við erum með á leigunni eru einnig í miklu uppáhaldi. Má þar nefna Stine Goya fyrir frumleika og snið. Flíkurnar frá þeim láta hverri konu líða eins og valkyrju í fötunum. Rodebjer býður upp á dásamlega vönduð efni og æðisleg snið og þessi smáatriði sem margir heillast af.

Svo er áhugavert að nefna GANNI fyrir fallegar vandaðar flíkur og metnað í sjálfbærnistefnu.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon

Fötin ekki aðalmálið á jólunum

Sjálf heillast Kristín Edda af einföldum klassískum flíkum.

„Einfaldar flíkur en þó með einhverju óvæntu, annaðhvort í sniði eða smáatriðum.“

Skiptir fatnaður miklu máli á jólunum?

„Ég klæði mig alltaf upp á á jólunum. Mér finnst aðfangadagskvöld vera hátíðleg stund. Oftast sæki ég svartan kjól sem ég hef átt í mörg ár, skelli mér í hælaskó og set hárið í hnút. – En svarið er í raun nei, mér finnst skipta mestu máli að minnka stress og að öllum líði vel. Ég man þegar elsta dóttir mín, sem nú er 11 ára, var þriggja ára, og ég var að vandræðast með hvort ég ætti að kaupa nýjan jólakjól á hana eða nota kjólinn frá árinu áður. Ég ákvað að nota fína kjólinn sem hún átti, enda var hann nánast ónotaður. Við vorum ekki búin að ljúka jólamatnum þegar barnið var komið á nærfötin alsæl, fegin að vera laus við kjólinn og tilbúin að opna pakkana. Ég var mjög fegin að hafa ekki fjárfest í jólakjól á hana það árið.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Færðu þér eitthvað fallegt og notalegt að vera í á jólunum?

„Nei, ég geri það ekki. Ég dreg fram þykkar peysur og nota hælaskóna mína meira, í raun alla aðventuna. Það er svona stemningin.

Ég er meira fyrir að gera eitthvað notalegt; hitta vini, eiga notalegan tíma með stelpunum mínum og fjölskyldu og fara í sund. Svo eru það litlu hlutirnir eins og að læsa baðherberginu og vera örlítið lengur en venjulega að þvo andlitið og bera á sig krem.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefur upplifað jólin víða um heiminn

Hefurðu upplifað jól erlendis eða einungis hér heima?

„Ég upplifði jól í Edinborg þegar ég bjó þar með hluta af fjölskyldunni minni þegar ég var tvítug. Við ákváðum að taka upp breskan sið og fara út að borða á aðfangadagskvöld og opna pakkana á náttfötunum hálfmygluð á jóladag. Það var skemmtileg reynsla en mér líkar samt betur við okkar íslensku hátíðlegu jól.

Ég hef einnig búið í London og ferðast líka mikið til Ameríku sem flugfreyja og þá finnur maður hvað þessi gríðarlega ofneysla er orðin fyrirferðarmikil. Við erum því miður að fá þessa strauma hingað þar sem stór hluti jólaundirbúnings gengur út á botnlausa neyslu.“

Hvernig tekur þú þátt í græna hagkerfinu á fleiri vegu á jólunum?

„Ég skreyti heimilið alltaf með sama jólaskrautinu sem ég hef safnað mér í gegnum tíðina. Ég nota síðan mikið af greni og náttúruleg efni í skreytingar.

Mín uppáhaldsiðja á jólunum er að pakka inn gjöfum og skreyta pakkana. Ég endurnýti alla borða og slaufur og nýti alls kyns efni sem fellur til í umbúðir.

Ég er í auknum mæli farin að gefa upplifanir og hef alltaf gefið Sannar gjafir Unicef og mun halda því áfram. Það eru frábærar gjafir að gefa og enn skemmtilegri að þiggja.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
Kristín Edda Óskarsdóttir, Patricia Anna Þormar og Sigríður Guðjónsdóttir.
Kristín Edda Óskarsdóttir, Patricia Anna Þormar og Sigríður Guðjónsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál