Fegurðardrottningin Hulda Vigdísardóttir hreppti 2. sætið í fegurðarsamkeppninni World Top Model sem fram fór í New York-borg um liðna helgi. Keppnin er hluti af tískuvikunni sem haldin er ár hvert í borginni en þetta er í fyrsta sinn sem íslensk fegurðardrottning tekur þátt í keppninni sjálfri.
„Gott silfur er gulli betra, ekki satt?“ sagði Hulda við færslu sem hún birti á Instagram þar sem hún greindi frá titlinum og góðu gengi sínu í keppninni.
Hulda er þrautreynd fegurðardrottning og hefur verið Íslandi til mikils sóma í öllum þeim keppnum sem hún hefur verið þátttakandi í nýverið, enda fengið ótal tækifæri í kjölfarið. „Undanfarnir dagar hafa bókstaflega verið eins og draumur,“ sagði Hulda sem er yfir sig þakklát fyrir tækifærið og þá upplifun sem hún er að lifa í New York um þessar mundir.
„Aldrei hefði ég trúað því að einn daginn ætti ég eftir að ganga um tískupallana á tískuvikunni í New York,“ sagði Hulda sem er að upplifa fjarlægan draum með frábærum árangri.