Ofurfyrirsætan Linda Evangelista hefur nánast verið í einangrun síðastliðin fimm ár þar sem hún hlaut varanlegan skaða af fitufrystingu sem hún fór í. Fyrirsætan sem var ein sú eftiróttasta á tíunda áratugnum segist vera hætt að fela sig.
Evangelista segist hafa hlotið líkamlegan og tilfinningalegan skaða af fitufrystingu og fór í september í mál við fyrirtækið Zeltiq Aesthetics. Hún fór í sjö meðferðir hjá dótturfyrirtæki Zeltiq Aesthetics á árunum 2015 til 2016 með ömurlegum afleiðingum.
„Ég elskaði að vera á tískupallinum. Núna þoli ég ekki að hitta einhvern sem ég þekki,“ sagði Evangelista í viðtali við People með tárin í augunum. „Ég get ekki lifað svona lengur, í felum og í skömm. Ég gat bara ekki lifað með þessum sársauka. Ég er tilbúin til þess að segja frá.“
Hún segist hafa fengið svokallað paradoxical adipose hyperplasia (PAH). PAH er lýst sem sjaldgæfum en slæmum aukaverkunum af fitufrystingu (cryolipolysis) þegar fituvefurinn bregst við kuldanum með því að vaxa frekar en skreppa saman.
Evangelista fór í fyrstu myndatökuna í mörg ár fyrir útgáfu People. Hingað til hefur hún meira að segja forðast að horfast í spegil. „Ég horfi ekki í spegil,“ segir fyrirsætan sem segir spegilmynd sína ekki líkjast sér. Hún segist ekki getað lagt handleggi sína með hliðum sínum og efast um að hönnuðir vilji klæða hana þannig. Á einni mynd má sjá fitukepp skjótast undan handakrika hennar sem er afleiðing meðferðanna.
Linda Evangelista í dag er mjög ólík Lindu Evangelista sem varð heimsfræg fyrir 30 árum. Hún sat á 700 forsíðum á ferli sínum og var í sérstöku uppáhaldi hjá Karl Lagerfeld. Anna Wintour, ritstjóri bandaríska Vogue, segir við People að enginn fyrirsæta hafi verið eins mikil ofurfyrirsæta og Evangelista en hún prýddi tískubiblíu Wintour 11 sinnum.