Drottningarnar af Chanel

Coco Chanel árið 1968. Hér er hún í hinni klassísku …
Coco Chanel árið 1968. Hér er hún í hinni klassísku Chanel dragt með fullt af hálsmenum. AFP

Það hefur alltaf verið ævintýrablær yfir franska tískuhúsinu Chanel sem Gabrielle Chanel, eða Coco eins og hún var kölluð, stofnaði 1913. Hún hugsaði öðruvísi en samtímakonur hennar, en í stað þess að leggja áherslu á hjónaband og barneignir ákvað hún að fara aðra leið. Það eru eflaust margar ástæður fyrir því en ein þeirra er kannski sú að hún missti mömmu sína þegar hún var lítil og pabbi hennar treysti sér ekki til að ala hana upp einn síns liðs og fór með hana á munaðarleysingjahæli. Hún átti því ekki heilbrigðar fyrirmyndir um hamingjuríkt fjölskyldulíf og hjónaband. Þessi hegðun pabba hennar hefur kannski ekki aukið trú hennar á karldýr heimsins.

Hún hafnaði þó ekki ástinni og átti í nokkrum ástarsamböndum á lífsleiðinni, en hún var einmitt í einu slíku þegar hún hóf rekstur hattabúðar við Rue Cambon 31 í París. Hattabúðin þróaðist út í það að framleiða og hanna föt sem áttu eftir að slá í gegn.

Chanel gjörbreytti tískuheiminum þegar hún fór að hanna og framleiða föt úr teygjuefni. Þetta gerðist á meðan fyrri heimsstyrjöldin geisaði en þá var efnisskortur í heiminum en teygjuefni var fáanlegt ef fólk notaði það í atvinnuskyni. Viðskiptakonan sem hún var sá sér leik á borði og fór að framleiða kvenfatnað úr teygjuefni sem áður hafði aðallega verið notað í herranærföt. Þetta gjörbreytti stemningunni, en fyrir þennan tíma höfðu konur gengið í fötum sem voru sniðin úr stífum efnum, og ýtti kannski undir einhver ævintýri.

„I make fashion women can live in, breath in, feel comfortable in and look younger in,“ sagði Chanel og það er auðvitið heilmikill sannleikur í því. Konum, og auðvitað fólki almennt, þarf að líða vel í fötunum og í eigin skinni. Kona í óþægilegum fötum er líklega ekki að fara að breyta heiminum eða láta drauma sína rætast. Hún er heldur ekki að fara að leggja á sig aukakrók til þess að ná markmiðum sínum.

Þótt Chanel sjálf hafi sofnað svefninum langa 1971 þá svífur andi hennar yfir tískuhúsinu. Ég upplifði þetta sterkt þegar ég var boðin í heimsókn til Chanel á dögunum. Það að fá innsýn í hvað tískuhúsið er að gera þessa dagana var áhugavert en það var líka gaman að grandskoða klæðaburð Chanel-drottninganna. Þar var enginn að flexa löngum gervinöglum, gerviaugnhárum eða teiknuðum augabrúnum. Þar var heldur enginn með andavarir. Náttúrulegt útlit einkenndi þær sem ég hitti og fatastíllinn veitti töluverðan innblástur. Það er oft minnst á hvað íslenskar konur eru svartar í klæðaburði og er þetta sett fram í neikvæðum tón.

Starfsmenn Chanel í París voru allar svartklæddar en þó hver á sinn hátt. Ein var í síðum víðum buxum úr ullarefni við ullarpeysu og fallega perlueyrnalokka. Önnur var í svartri dragt með margar perlufestar. Sú þriðja var í hnésíðu pilsi og rúllukragapeysu með belti og sú fjórða í buxum og skyrtu og í stórri ullarkápu yfir. Allar voru þær með vel greitt hár, vel farðað andlit og huggulega til fara án þess að vera með glannagang. Þær voru hlaðnar merkjavöru en skörtuðu þó ekki þessu nýríka yfirbragði sem einstaka sinnum getur verið of áberandi. Það var annað sem ég tók eftir og það var að þær voru allar í þægilegum skóm eða allavega skóm sem þær gátu þrammað í á milli hverfa. Þegar ég spurði út í þetta kom í ljós að þessar Parísardömur ferðast ekki um í leigubílum því þær nenna ekki að vera fastar í umferð meðan mælirinn gengur. Í stað þess að fara í ræktina labba þær.

Svei mér ef það er ekki hægt að læra eitthvað smá af þessum drottningum. Eina sem ég treysti mér ekki í strax er að leggja bílnum, því samkvæmt Google Maps tæki það þrjá kukkutíma og 19 mínútur að labba í vinnuna!

Þessi mynd var tekin af Coco Chanel 1944.
Þessi mynd var tekin af Coco Chanel 1944. AFP
Virginie Viard er yfirhönnuður Chanel. Hér er í svörtu frá …
Virginie Viard er yfirhönnuður Chanel. Hér er í svörtu frá toppi til táar. CHRISTOPHE ARCHAMBAULT
Virginie Viard.
Virginie Viard. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda