„Ég hélt ég þyrfti að lifa eins og munkur“

Ingólfur Már Grímsson starfar á hárgreiðslustofunni Hárbeitt.
Ingólfur Már Grímsson starfar á hárgreiðslustofunni Hárbeitt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ingólfur Már Grímsson var einungis sautján ára þegar hann byrjaði að safna skeggi. Í fyrstu hélt hann að engin kona myndi vilja hann þannig, þar til hann hitti Ernu Guðmundsdóttur, eiginkonu sína, sem var einmitt hrifinn af honum í víkingabúningi með öllu tilheyrandi. 

Ingólfur Már vinnur á Hárbeitt í Hafnarfirði. Hann er öflugur í víkingasamfélaginu, þar sem hann kynntist Ernu eiginkonu sinni, og karlar þykja flottari með skegg en ekki.

„Ég hélt ég þyrfti að lifa eins og munkur þegar ég safnaði skeggi fyrst. Að engin kona myndi líta við mér. En svo var ekki raunin og í dag hef ég komist að því að sumar konur elska skegg á meðan aðrar vilja ekki sjá það. Smekkur fólk er misjafn og mér finnst mikilvægt að hlusta á hvað konan hefur að segja með útlitið, en svo þarf ekki endilega að hlýða því. Ég er reyndar heppinn með að Erna elskar skeggið, en við erum líka mjög samrýnd og á pari með margt.“

Þau Ingólfur og Erna kynntust einmitt á víkingahátíð, en bæði eiga þau fjölskyldur sem eru virk í samfélaginu.

„Ég datt inn í þetta árið 2004 þegar ég var um þrítugt, en ég hafði verið að leika mér með að safna skeggi frá sautján ára aldri. Ég safnaði hins vegar ekki alskeggi fyrr en upp úr aldamótum.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Það eru til skýrar reglur um hvað er gott grunnskegg

Þegar Ingólfur talar um skegg má glöggt heyra að hann er að tala um eitthvað sem hljómar eins og heil listgrein.

„Já enda er hægt að forma og leika sér mikið með skeggið. Það eru skýrar reglur um hvað er gott grunnskegg svo ef þú veist það form, getur þú leikið þér mikið út fyrir það. Flestir vilja forma kjálkann og ekki hafa hann rúnaðan. Við notum ólíkar aðferðir við að breikka andlitið og mjókka það. Skegg getur búið til höku á karlmenn sem ekki eru með höku og skegg fjarlægir undirhökuna, getur grennt feitlagið andlit og breikkað grannt andlit.

Við karlmenn notum ekki jafnmikinn farða og konur gera, en við getum notað skeggið og hárið okkar til fegrunar.“

Hvað með litinn á skegginu?

„Ég mæli alltaf með því að hafa skeggið eins náttúrulegt og hægt er enda ekki gott að vera með mikinn lit í skegginu í kringum muninn. En það er alltaf hægt að tóna skeggið aðeins til, en gæta ber að því að tónninn sé ekki langt frá rótinni.“

Þá ertu kominn í Hvað ertu að reyna- flokkinn

Ingólfur segir ósjarmerandi þegar menn reyna að breyta útliti sínu of mikið.

„Þá ertu kominn í Hvað ertu að reyna-flokkinn, eins og þegar þú horfir á einstaklinga sem eru að rembast við að vera yngri en þeir eru, í einhverjum stíl sem ekki virkar.

Þá er ég ekki að tala um þegar fólk litar sig með áberandi litum og eru þá með ákveðna yfirlýsingu í því.“

Sjálfur velur Ingólfur að kalla fram kjálkalínuna með skegginu og leyfir gráum hárum að nóta sín inn á milli í því.

„Það er betra að vinna með gráu hárin í stað þess að slást við þau!“

Almennt minnka karlar skegg sitt á sumrin vegna hitans þótt hann geri andstæðuna við það.

„Ég safna skeggi fyrir víkingahátíðirnar sem eru vanalega á sumrin. Ég er þó á því að nú fari karlar að leyfa skegginu að síkka aftur, en á tímum kórónuveirunnar var skeggið styttra, þá aðallega vegna grímunotkunar.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hárið verður að passa við skeggið

Aðalmálið við skegg að hans mati er umhirða þess og frágangur.

„Síddin er að mínu mati ekki aðalmálið heldur umhirðan og hvernig skeggið er þrifið.

Ég mæli með að þrífa skeggið á hverjum degi eða reglulega með sjampói. Það er vinsælt að nota Davines Purifying sjampó til að vinna á húðvandamálum en enginn vill upplifa það að vera með flösu í skegginu eða snjó af flösu á bringunni.

Ég set olíur í skeggið og stundum set ég næringu sem skilja má eftir í því. Aðalmálið er að vera með olíuna og ef í henni er sterkur ilmkjarni þarf að passa að hann fari vel með rakspíranum.“

Hvaða olíum í skegg mælir þú með?

„Ég mæli með olíunum frá Brooklyn Soap Company, eins eru Davines-olíurnar líka góðar. Málið er að vera með olíur sem gerðar eru af fagfólki.“

Hver er svo reglan þegar kemur að skeggi og hári?

„Hárið verður að passa við skeggið og annaðhvort er skeggið tengt á skemmtilegan hátt við hárið eða það er aftengt við hárið á skipulagðan hátt.“

Mælir með að skoða skeggtískuna í tískublöðum

Hvernig eiga karlar að líta út að vori á þessu ári?

„Þeir eiga að vera eins og þeir vilja vera en þó ekki með hálfa dollu af ódýru geli í hárinu. Það er í tísku að þvo hár og skegg reglulega með vönduðum vörum og að nota góð efni sem gera hárið fallegra.

Tískan er ekki eins og áður einhver einn stíll, heldur ætti hver og einn að finna eitthvað við sitt hæfi. Að vera með smá hár er að verða talsvert vinsælt og jafnvel vera með náttúrulegar eða tilbúnar krullur sem þá eru gerðar með permanenti. Aðeins klassískara „fade“ er að verða vinsælt og meira um „mullets“. Toppurinn er ýmist greiddur fram eða aftur og aðeins til hliðar.

Ég mæli með því fyrir alla sem vilja fylgjast með því nýjasta þegar kemur að hári að skoða tískublöðin, en skoða þá hár þegar verið er að auglýsa úr og skegg þegar verið er að auglýsa hárið.“

Hvað áttu við með þessu?

„Hár er lykilhluti heildarútlits og nota stílistar um víða veröld nýjasta útlitið í alls konar herferðum og þá ekki endilega þegar verið er að auglýsa hárið beint, heldur alls konar úrvalsvörur sem eftirsóknarvert er að eiga.“

Þar sem flottara þykir að vera með skegg en ekki

Ingólfur er á kafi í því að vera fjölskyldumaður og þegar hann er ekki í vinnunni þá eiga börnin og konan hug hans allan.

„Konan mín fór í víkingasamfélagið á undan mér og er þar með fókusinn á handverkið. Ég fór svo í skylmingar aðeins á undan henni og fékk þá að vera einn af leiðbeinendum hennar í því. Börnin okkar eru áhugasöm um samfélagið og hefur elsti drengurinn okkar, sem er tólf ára, einungis misst af einni víkingaferð á erlendri grundu sem var í fyrra, þegar ekki reyndist viðeigandi að taka óbólusett börn með til útlanda.“

Á sumrin eru víkingahátíðir reglulega haldnar en fjölskyldan fer á tvær hátíðir í röð í Danmörku á sumrin.

„Ég dró mömmu og aðra systur mína með mér á sínum tíma í þetta skemmtilega samfélag og hefur það orðið okkar önnur fjölskylda og er móðir konu minnar einnig í henni.

Það er svo ótrúlega margt spennandi hægt að gera í þessu samfélagi og svo þykir miklu flottara að vera með skegg þarna en að vera skegglaus.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda