Knattspyrnumaðurinn Ásgeir Börkur Ásgeirsson er sagður vera einn best skeggjaðasti maður landsins. Ásgeir fékk skeggrót ungur að árum og hefur sjaldan skafið af sér skegghýjunginn síðan skeggið tók að vaxa.
„Ég hef ekki alrakað af mér skeggið í mörg, mörg ár,“ segir Ásgeir Börkur sem hefur þó kosið það til fjölda ára að vera snöggklipptur eða með snoðinn haus.
„Megin ástæðan fyrir því að ég raka af mér hárið er sú staðreynd að ég er farinn að missa hárið,“ segir Ásgeir með heiðarlegum hætti. „Mér líður ekkert illa með það. Ég hef verið svona svo lengi, ég byrjaði að snoða mig þegar ég var 13 eða 14 ára gamall þannig þetta útlit er ekkert nýtt fyrir mér,“ segir Ásgeir um hárþynninguna sem er mörgum karlmönnum eðlislæg. „Þetta er mjög erfitt fyrir marga. Ég á marga félaga sem eru farnir að missa hárið og margir þeirra hafa miklar áhyggjur af því. Þetta er bara eitthvað sem menn verða að sætta sig við,“ segir hann.
Ásgeir hugsar vel um skegg sitt og fer reglulega í skeggrakstur á stofu. Hann setur skeggolíu í skeggið á hverjum degi og jafnvel nokkrum sinnum á dag þar sem tíðar sturtuferðir geta haft áhrif á þurrk og raka skeggs og húðar.
„Olíuna nota ég dagsdaglega. Sem knattspyrnumaður fer ég svolítið oft í sturtu. Ég fer í sturtu á morgnana og aftur í sturtu eftir æfingar,“ segir Ásgeir Börkur. „Það er mjög mikilvægt að bera olíu í skeggið eftir hverja sturtuferð. Ég geri það og stundum geta skiptin farið upp í tvisvar til þrisvar sinnum á dag. Ef ég set ekki olíu í skeggið þá verð ég svo þurr og þá fer að myndast skeggflasa. Það er eitthvað sem er ekki skemmtilegt,“ útskýrir hann.
Ásgeir segir vel mótað skegg vera algert lykilatriði. Hann segist ekki vera mjög djarfur þegar kemur að skeggmótun en þó hefur hann prófað að raka skeggið í ýmsum útfærslum í gegnum tíðina. Kleinuhringjalúkkið hefur ekki fallið í kramið hjá Ásgeiri hingað til en hann segist halda fast í venjubundna skeggmótun.
„Í undantekningar tilvikum hef ég mótað skeggið mitt á flippaðan hátt bara upp á gamanið en yfirleitt er þetta nokkuð hefðbundið hjá mér. Fyrirmyndin er í raunin engin, bara gott og vel mótað skegg. Það er það sem ég legg mest upp úr,“ segir Ásgeir sem er vandlátur þegar kemur að skegginu og fer jafnan á sömu stofuna í rakstur. „Ég fer oftast til Frikka klippara á hárgreiðslustofunni Slippnum sem er á Laugaveginum - hann er sá besti,“ segir Ásgeir og hælir Friðriki Jónssyni, hárgreiðslumanni, í hástert.
„Það er ekki nóg að vera bara með skegg, þú þarft að sjá um það líka,“ segir Ásgeir Börkur. „Ég nota alltaf olíu, sama hversu lítið eða mikið skegg ég er með. Um leið og ég er kominn í mikla sídd þá fer ég að nota mottuvax aðeins meira,“ segir Ásgeir en ástæðan fyrir aukinni notkun á vaxinu er aðallega sú að koma í veg fyrir að matarleifar festist í skegginu. „Þetta hefur sína kosti og galla,“ segir Ásgeir og hlær. „Það auðveldar manni að borða þegar maður er með vax í skegginu. Það vill enginn ganga um með mat í skegginu allan daginn.“
Húð Ásgeirs mætir alls ekki afgangi að hans sögn. Örar sturtuferðir gera þörfina fyrir góðu rakakremi enn meiri.
„Ég nota rakakrem bæði á andlit og líkama. Nýlega fór ég líka að nota C-vítamín úða frá Body Shop og þetta tvennt hef ég verið að nota daglega á andlitið. Það gerir mjög mikið að næra húðina,“ segir Ásgeir Börkur sannfærandi og hvetur kynbræður sína til að vera ófeimna við að huga að þessum þáttum.