Flutti til Íslands og opnaði snyrtilega líkamsgötunarstofu

Emmu Bélisle tókst vel til þegar hún opnaði stofuna Emma …
Emmu Bélisle tókst vel til þegar hún opnaði stofuna Emma Body Art nýlega. mbl.is/Kristinn Magnússon

Emma Bélisle á og rekur líkamsgötunarstofuna Emma Body Art. Emma er 24 ára gömul, fædd og uppalin í Montréal í Kanada. Árið 2019 ferðaðist hún í fyrsta sinn til Íslands til þess eins að skoða landið og eiga gott frí í nokkra daga. Ferðin varð hins vegar ansi afdrifarík fyrir Emmu og hefur hún nánast verið á Íslandi síðan. Hún stofnaði fallega líkamsgötunarstofu sem hefur náð töluverðum vinsældum síðustu mánuði sem hefur gert það að verkum að Emma hefur átt erfitt með að anna eftirspurn. 

„Ég fór í frí til Íslands það ár og hitti þar Hilmi, eiginmann minn. Þá var sko ekki aftur snúið,“ segir Emma og hlær, en þau Hilmir Freyr giftu sig í júní ári seinna. 

Emma segir áhugann á líkamsgötun alltaf hafa verið til staðar. Þegar hún sótti háskólanám í ferðamálafræði í Kanada freistaðist hún oft til þess koma við á líkamsgötunarstofu sem staðsett var beint á móti háskólabyggingunni. 

„Ég var alltaf að fara þangað og fá mér göt sjálf. Einn daginn var ég búin að koma svo oft þangað að mér var boðin vinna þar. Ég ákvað að slá til og taka atvinnutilboðinu og vann á þessari stofu sem lærlingur í þrjú ár frá árinu 2015,“ segir Emma sem fann sig algerlega í faginu. 

Hilmir og Emma kynntust árið 2018 þegar Emma ferðaðist í …
Hilmir og Emma kynntust árið 2018 þegar Emma ferðaðist í fyrsta sinn til Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar Emma flutti til Íslands og þau Hilmir hófu búskap byrjaði hún á að vinna í bakaríinu Brauð og Co. Í millitíðinni hafði hún ekkert verið að gata en segist fljótt hafa fundið fyrir líkamsgötunar söknuði. „Hilmir hvatti mig til þess að byrja aftur og hjálpaði mér að finna leiðir til þess,“ segir hún.

Fljótlega tóku að breiðast út sögusagnir af því að Emma væri líkamsgatari og áður en hún vissi af var hún farin að gata vini og vandamenn. Emma segist strax hafa fundið fyrir miklum áhuga á meðal Íslendinga og skyndilega bættust alltaf fleiri og fleiri í röðina sem langaði til að láta gata sig. „Við ákváðum upp frá þessu að eyða öllum peningunum okkar í að panta skartgripi og kaupa öll þau tæki og tól sem þurfti og tókum lítið herbergi á leigu í Hamraborginni,“ útskýrir Emma sem hætti í níu til fimm starfinu sínu og lét draum sinn rætast. 

Fallega skreytt eyra á viðskiptavini Emmu.
Fallega skreytt eyra á viðskiptavini Emmu. Skjáskot/Instagram

„Þetta var fyrir tæplega ári síðan, eða í mars 2021. Eftir nokkra mánuði í Hamraborginni fundum við fyrir enn meiri áhuga og fljótlega var herbergið orðið allt of lítið,“ segir Emma en eftir að herbergið í Hamraborginni hafði sprungið utan af rekstrinum flutti Emma líkamsgötunarstofuna á Barónsstíg 3, þar sem hárgreiðslu- og rakarastofan Barber Shop Genti er einnig til húsa. Þar til Emma opnaði dyrnar á nýrri og glæsilegri líkamsgötunarstofu á Hverfisgötunni í miðbæ Reykjavíkur fyrr í þessum mánuði.

Snúið að stofna til reksturs

Emma segir mörg ljón hafa staðið í veginum síðasta árið og að áskoranirnar hafi verið margar. „Þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt,“ segir hún. „Það var erfitt að finna gott húsnæði til leigu fyrir þennan rekstur og tungumála örðugleikar hafa stundum sett strik í reikninginn líka,“ segir Emma sem hefur frönsku að móðurmáli en henni fer stöðugt meira fram í íslenskunni. „Fólki þótti ég líka vera heldur ung og það hafa ekki allir tekið mig alvarlega sökum þess. Ég skildi auðvitað ekki neitt í fyrstu hvernig ég ætti að stofna eða reka fyrirtæki á Íslandi en ég fékk til mín bókara sem aðstoðaði mig við allt ferlið,“ segir Emma.

Emma er í samstarfi við þýskan skartgripaframleiðanda.
Emma er í samstarfi við þýskan skartgripaframleiðanda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nú starfa fjórir starfsmenn á líkamsgötunarstofunni Emma Body Art. Stofan hefur staðið í mörgum flutningum síðasta árið en er loksins komin í öruggt húsnæði við Hverfisgötu 52.  „Ég legg mikið upp úr því að mæta öllum helstu þörfum viðskiptavina minna og er mjög spennt að hafa getað opnað stofuna í stærra og öruggara húsnæði,“ segir hún og bætir við að vefverslun á hágæða skartgripum sé einnig í bígerð. „Ég hef mikinn áhuga á fínum og hágæða skartgripum og notast alfarið við þá skartgripi sem standast kröfur og gæði,“ segir Emma staðföst. „Framboðið á líkamsgötun og hágæða skartgripum er ekki mikið hér á Íslandi. Mér finnst ég hafa fullt tilefni til að opna á þann markað hér og þess vegna gata ég einungis með fallegum skartgripum sem eru úr ekta gulli, demöntum og gimsteinum en einnig skartgripum úr viðurkenndu titanium efni,“ segir Emma sem á í farsælu samstarfi við skartgripa fyrirtæki í Þýskalandi. 

Emma leggur mikið upp úr þægindum viðskiptavina sinna.
Emma leggur mikið upp úr þægindum viðskiptavina sinna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska vatnið oft til fyrirstöðu

„Stærsta áskorunin við það er að flestir erlendir birgjar hugsa ekki um íslenska vatnið og hvernig það fer með skartið. Svo nú erum við í samstarfi með þýsku fyrirtæki þar sem við hönnum og betrumbætum gullhúðun skartsins svo það endist betur í vatninu hérna á Íslandi,“ segir Emma sem gerði sér það aldrei í hugarlund hversu vinsæl líkamsgötunin yrði hér á landi. „Ég hafði smá áhyggjur af því að fara út í þennan rekstur og hélt að viðskiptavinir myndu bara koma einu sinni og aldrei aftur en margir sem byrja á einu gati eru komnir aftur til mín eftir tvær til þrjár vikur og vilja meira,“ segir hún og hlær af þakklæti. 

Hvað ert þú með mörg göt á líkamanum?

„Ég er sjálf með fullt af götum í eyrunum, tvö göt í nefinu og ég elska að prófa nýja skartgripi. Ég hef mestan áhuga á skartgripunum og úr hverju þeir eru gerðir,“ segir Emma og augljóst að hún er mjög vandlát á skartið. 

Aðal markhópur Emmu Body Art eru viðskiptavinir á aldursbilinu 16-28 ára. Þó segir Emma að margir yngri og eldri en það komi við á stofunni og láti gata í sig. „Viðskiptavinahópurinn okkar er mjög fjölbreyttur og við tökum á móti öllum. Unglingar þurfa alltaf að koma með foreldri eða forráðamanni og það er gaman að segja frá því að foreldrarnir eru oft mættir nokkrum vikum seinna til að fá sér gat líka,“ segir hún og hlær.

„Við erum öðruvísi því við gerum engin húðflúr eins og oft á götunarstofum. Við erum mitt á milli þess að vera skartgripabúð og götunarstofa, en við viljum líka gera mjög mikið úr því að vera með notalegt andrúmsloft á staðnum og að öllum sem koma líði vel þegar þau koma til okkar.“

Nýja stofan á Hverfisgötunni er mjög björt og falleg.
Nýja stofan á Hverfisgötunni er mjög björt og falleg. mbl.is/Kristinn Magnússon
Emma Body Art lítur ekki út eins og venjuleg líkamsgötunarstofa. …
Emma Body Art lítur ekki út eins og venjuleg líkamsgötunarstofa. Mjög falleg og snyrtileg stofa. mbl.is/Kristinn Magnússon
Emma notar aðeins hágæða skart við störf sín.
Emma notar aðeins hágæða skart við störf sín. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda