Ugla Snorradóttir, förðunarfræðingur, ólst upp á Akureyri en nýlega flutti hún til Reykjavíkur til þess eins að geta stundað förðunarnám hjá Reykjavík Makeup School. Ugla, sem er aðeins 22 ára gömul, segir það hafa verið stórt skref að yfirgefa heimahagana og byrja lífið á eigin spýtur fjarri vinum og fjölskyldu en hún sjái þó ekki eftir þeirri ákvörðun.
„Mig var búið að dreyma um það að flytja suður í mörg ár og það ákvað ég að gera eftir að hafa lokið við framhaldsskólamenntun,“ segir Ugla sem útskrifaðist með stúdentspróf úr Verkmenntaskólanum á Akureyri haustið 2021 og ákvað að elta drauminn að því loknu.
„Ég ákvað að flytja aðallega til þess að fara í Reykjavík Makeup School. Það var mjög stórt skref fyrir mig að flytja frá fjölskyldunni en ég vissi að það myndi borga sig. Sem það svo sannarlega gerði,“ segir hún en Ugla útskrifaðist með hæstu lokaeinkunn í sögu Reykjavík Makeup School. „Ég útskrifaðist sem förðunarfræðingur í október 2021 með 10.0 í lokaeinkunn. Það er hæsta lokaeinkunn sem gefin hefur verið í Reykjavík Makeup School,“ segir Ugla og er að vonum stolt af sjálfri sér og árangrinum.
Ugla er mjög skapandi og hefur næmt auga fyrir smáatriðum. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Ugla verið lengi með tærnar í skartgripaversluninni Úr og Skartgripir á Glerártorgi, sem langafi hennar, Halldór Ólafsson, setti á laggirnar árið 1950. Hefur upp frá því blundað í henni lengi að læra skartgripagerð og gullsmíði í framtíðinni. „Áhugi minn á skarti kviknaði snemma og hefur blómstrað síðustu ár. Ég er að hugsa um að læra gullsmiðinn í náinni framtíð,“ segir Ugla en um þessar mundir starfar hún sem leiðbeinandi í leikskóla og sem gestakennari hjá Reykjavik Makeup School. „Samhliða því hef ég líka verið að taka að mér alls konar förðunarverkefni. Bæði stór og smá,“ segir Ugla en hægt er að fylgjast með henni á samfélagsmiðlinu Instagram undir nafninu Makeup By Ugla.
Hvernig farðar þú þig dagsdaglega?
„Ég elska að byrja daginn á því að sitja fyrir framan spegilinn minn og græja mig. Ég fer sjaldan út úr húsi án þess að vera búin að gera augabrúnirnar mínar og ef ég er að fara í vinnuna set ég alltaf eitthvað á andlitið. Þá aðallega BB krem eða farða og maskara,“ segir Ugla. „If you look good, you feel good,“ slettir hún og bætir við: „Eða það eru allavega meiri líkur á því að þér líði vel. Mér finnst líka bara mjög mikilvægt að eiga rólega stund með sjálfri mér áður en ég fer út í daginn.“
En þegar þú ferð út á lífið?
„Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá finnst mér oft skemmtilegra að græja mig fyrir kvöldið heldur en kvöldið eða djammið sjálft. Ég gef mér alltaf nægan tíma í að taka mig til og ég elska að hlusta á tónlist eða sakamála hlaðvörp á meðan,“ segir Ugla. „Ég elska að prófa eitthvað nýtt og ég er oft búin að hugsa hvernig förðun ég ætla að gera á mig mörgum dögum áður en að tilefninu kemur.“
Hvað tekur það þig langan tíma að gera þig til?
„Það er mjög misjafnt hvað það tekur mig langan tíma. Það fer allt eftir því hvað ég er að fara að gera. Ef ég er í fríi og ekki að fara að gera neitt sérstakt þá græja ég mig lítið sem ekkert. Ef ég geri eitthvað þá er það að setja dagkrem og gel í augabrúnirnar og það tekur mig fimm mínútur. Ef ég er að fara út á lífið og hef dramatíska förðun í huga þá getur það tekið mig þrjár klukkustundir,“ segir Ugla, sem hefur unun að því að farða sig. „Mér finnst skemmtilegast að farða þegar ég er ekki undir tímapressu.“
Ugla segist ekki fara langt án augabrúnagels og varasalva. Hún segist leggja mikið upp úr því að hafa vel lagaðar og fallega mótaðar brúnir en án varasalvans fer hún hvergi.
„Það sem er helst að finna í snyrtibuddunni minni er augabrúnagel, maskari, bronzer og varasalvi. Ég fer aldrei, aldrei, aldrei út úr húsi án varasalva,“ viðurkennir Ugla.
„Ég reyni alltaf að setja eitthvað í brúnirnar mínar og ég elska aflitaðar augabrúnir,“ segir Ugla. „Mér finnst það svo töff en það fer ekki öllum vel. Ég gæti ekki ímyndað mér að það myndi fara mér vel en ég er búin að gera það við mömmu mína og hún er algjör skvísa,“ segir hún og spáir mikið í augabrúnum fólks. Enda kunna þær oft að vera ansi svipsterkar.
Hvað finnst þér vera svona ,,last year” þegar kemur að förðun?
„Kannski ekki „last year“ en eitthvað sem mér finnst ekki smart er ljósbleikur varalitur og súper mattur varalitur. Það er líka margt sem ég held að mér finnist eitthvað úrelt eða ekki flott og svo sé ég einhvern sem gjörbreytir skoðuninni minni og mér finnst það frábært. Ég er mjög opin fyrir að próf hluti og elska þegar fólk fer út fyrir kassann,“ segir hún.
Ugla segir náttúrulega förðun vera aðalmálið um þessar mundir. Það þurfi ákveðna fimi til að láta förðun líta út fyrir að vera ekki förðun.
„Mér finnst ég sjá þetta svokallaða „no makeup-makeup” eða “clean makeup-look“ alls staðar. Mér finnst líka margir vera farnir að vera óhræddari við að bæta skemmtilegum litum við förðunina sína sem mér finnst rosalega skemmtilegt að sjá,“ segir Ugla og minnist þess hversu miklum breytingum förðunartrendin hafa verið að taka síðustu ár.
„Það sem einkenndi mig fyrstu árin í framhaldsskóla voru alltof dökkar augabrúnir og brúnkukremshendur sem voru alltaf miklu dekkri en restin af líkamanum. Mjög töff. Mæli með eða þannig,“ segir Ugla sem lítur á fyrstu ár framhaldsskólagöngu sinnar sem „förðunarslys“.
Með hvaða hætti hugsar þú um húðina þína?
„Ég er mjög heppin með húðina mína þar sem ég fæ ekki mikið af áberandi bólum, þurrkublettum eða eitthvað slíkt, þó að það komi alveg fyrir. Ég er frekar nýlega byrjuð að dýfa tánum í heim húðumhirðu og það má ekki gleyma að farði lítur alltaf best út á vel nærðri húð. Ég nota mikið Tea tree línuna frá Body Shop, vörurnar frá Decubal og Cerave. Þær finnst mér bestar,“ segir Ugla og tekur því fagnandi að snyrtivöruframleiðendur séu í auknum mæli farnir að huga að umhverfisstefnu.
„Ég reyni eins og ég get að styðja umhverfisvænar snyrtivörur. Og ég hvet alla til að vera vakandi fyrir því. Mér finnst frábært hversu margar vörur eru nú fáanlegar í umhverfisvænum pakkningum og að það sé búið að minnka allt plastið. Það er mjög leiðinlegt ef vörurnar sem eru með bestu gæðin á markaðnum er mjög óumhverfisvænar og þá langar manni ekki til að kaupa þær. Ég vona að fleiri og fleiri fyrirtæki fari að taka sig á og reyna að finna ennþá betri lausnir, sérstaklega stærstu og vinsælustu snyrtivörufyrirtæki heims,“ segir Ugla og er annt um umhverfið.
Hvað gerir þú til að dekra við líkama og sál?
„Ég elska að sitja fyrir framan spegilinn minn og leika mér með „makeup“ í rólegheitunum. Það er ákveðin hugleiðsla fyrir mig. Ég og sambýliskonur mínar erum líka mjög duglegar að púsla og hlusta á góða tónlist. Það er svo hollt og gott að hætta að pæla í öllu í smá stund og einbeita sér bara að einhverju einu. Ég mæli hiklaust með því fyrir þá sem eru undir miklu álagi eða stressi. Þetta hefur hjálpað mér mjög mikið og alltaf gott að eiga smá kósýstund með vinum eða fjölskyldu.“