Rithöfundurinn Silja Björk Björnsdóttir segir þyngdartap raunveruleikastjörnunnar Kim Kardashian fyrir Met Gala-hátíðina vera bæði óheilbrigt og skaðlegt. Ekki bara fyrir heilsu Kardashian heldur fyrir umræðuna líka. Kardashian vakti mikla athygli á rauða dreglinum fyrir stærsta tískukvöld ársins en til þess að komast í sögufrægan kjól missti hún átta kíló á aðeins þremur vikum.
Kjóllinn var áður í eigu leikkonunnar Marilyn Monroe og fékk Kardashian hann lánaðan af safni fyrir kvöldið. Skömmu eftir rauða dregilinn skipti hún svo yfir í eftirlíkingu af kjólnum til þess að passa upp á að ekkert kæmi fyrir hann og var því aðeins í nokkrar mínútur í upprunalega kjól Monroe.
Silja Björk segir ömurlegt að sjá umræðuna um það sem hefði átt að vera merkilegasta andartakið á tískukvöldinu falla í skugga megrunarmenningar.
„Það eru nefnilega ákveðin líkindi milli Marilyn Monroe og Kim Kardashian, og er það mjög táknrænt að hún hafi klæðst þessum kjól. Báðar eru þessar konur táknmyndir fegurðar og kynþokka síns tíma, báðar kyntákn sem hafa ítrekað þurft að berjast gegn kvenfyrirlitningu, feðraveldinu og háværum gagnrýnisröddum sem kölluðu þær óverðugar, heimskar og kjánalegar fyrir það eitt að eigna sér kynþokka sinn og græða á honum. Þess vegna var þetta augnablik, þessar bókstaflegu mínútur sem Kim fékk að vera í kjólnum, algjörlega stórbrotið fyrir poppkúltúr,“ segir Silja í samtali við Smartland.
Hún segir það miður að Kardashian hafi fundið sig knúna til að beina athyglinni að skyndimegruninni sem hún fór í fyrir viðburðinn.
„Hér glataðist stórbrotið augnablik sem hefði getað lifað sem svo öflug samfélagsleg ádeila á feðraveldisdýrkun samfélagsins og í rauninni bara stór langatöng í fésið á þeim sem sögðu þær stöllur heimskar og óverðugar vegna útlits síns, á sama tíma og þeim var hampað fyrir téð útlit.“
Silja bendir á að líf Kardashian og raunveruleiki hennar sé litaður af útlitsdýrkun, megrunarmenningu og glamúr á þann hátt sem við „venjulega“ fólkið skiljum ekki. Hún hefur lifibrauð sitt af því að líta vel út og koma vel fram og þannig hefur hún náð að byggja fjölmiðla- og viðskiptaveldi sitt. „Kim er ekki vitlaus, hún er mjög klár en hún er auðvitað ekki í tengslum við raunveruleikann eins og við þekkjum hann,“ segir Silja.
Hún segir það sorglegt að Kim hafi ekki fattað að slúðurpressan myndi grípa þessi ummæli hennar á lofti og gera sér fréttamat úr því svo dögum og vikum skipti. Tilgangur þess að ganga í kjólnum hafi glatast í hávaðanum í kringum þessi megrunar-ummæli hennar.
„Þessi skyndimegrun hennar er ekkert nema olía á sjóðandi heitan eld megrunarmenningar, eld sem aðgerðarsinnar og margir áhrifavaldar, eiga í fullu fangi með að reyna að slökkva.“
Kardashian fjölskyldan hefur í meira en áratug haldið úti vinsælum raunveruleikaþáttum sem milljónir horfa á í hverri viku. Flest í fjölskyldunni lifa á því að selja ímynd sína og útlit og taka þannig þátt í þeim iðnaði sem gengur út á að selja skyndilausnir til kvenna sem hata líkama sinn og útlit sitt.
Silja Björk bendir á að Kardashian systurnar hafi alist upp í samfélagi þar sem skilaboðin eru að útlit okkar og kílóatala endurspegli virði okkar sem manneskjur. Nú þegar þær systur séu komnar í þessar gríðarlegu valdastöður þá skipti hvert einasta orð sem þær segja gríðarlegu máli.
„Man hélt að eftir áratug í sviðsljósinu hefði Kim áttað sig á því að hún hefði betur sleppt þessari megrunar-umræðu á Met kvöldinu. Svo gera þær sér sjálfar oft ekki grein fyrir því að þær, sem áhrifamestu stjörnur allra tíma, hafa stórkostlega mikil áhrif á dægurmenninguna, útlits- og fegurðarstaðla – það eru þær sem setja straumana sem við förum eftir,“ segir Silja Björk og bendir á að þær hafi tækin og tólin til að brjóta á bak menningarumræðunnar.
Kardashian systur hafa ítrekað gerst sekar um það að vinna ljósmyndir af sjálfum sér til að virðast grennri, selja megrunarte eða skyndilausnir. Þar að auki hafa þær aðgang að næringarfræðingum, einkakokkum, einkaþjálfurum og lýtalæknum sem eru ekki á færi allra.
„Þær segja okkur trekk í trekk að bara ef við erum nógu dugleg, vinnum nógu hart að markmiðum okkar og gerum eins og þær, getum við litið út eins og þær. Kardashian-Jenner veldið er byggt upp á því að þau séu bara „venjuleg en rík” fjölskylda sem hafa bara unnið gríðarlega hart að því að komast þangað sem þau eru í dag.“
„Þess vegna eru þessi ummæli hennar um skyndimegrunina skaðleg, vegna þess að hún er að segja okkur án þess að vera jafnvel meðvituð um það, að ef okkur langi að léttast um átta kíló á 21 degi getum við það líka. Við verðum bara að hætta að borða kolvetni, snakka á tómötum og svitna í gufubaði, eins og það sé eðlilegt og ekkert mál. Hvernig eru það ekki skaðleg skilaboð að senda út í heiminn?“
Silja Björk segir það skýrt að Kardashian beri ábyrgð á umræðunni en að það sé allt önnur umræða hvort hún hafi vit á því eða viljann til að axla ábyrgð. „Kim Kardashian hefur gríðarleg ítök á iðnaðinum og það mikið vald að hún gæti nánast rifið niður megrunarmenninguna ein síns liðs, ef hún bara hefði áhuga á því.“
Mikið hefur verið fjallað um líkama Monroe og þóttu mittis-, mjaðma- og brjóstmál hennar vera hin fullkomnu mál á sínum tíma. Silja Björk bendir á að það galnasta við umræðuna um líkama Monroe sé að hún hafi í gegnum tíðina verið sögð vera í „stærri stærðum“.
„Marilyn var einhverskonar heilög táknmynd og fyrirmynd fyrir konur í stærri stærðum, vegna þess að hún var með línur, stór brjóst og mjaðmir, stundum smá maga og er kannski frekar svipuð og Kim í vextinum þó hún hafi ekki haft sama aðgang að „fótósjoppi”, filterum og lýtalækningum. Það gerir þessa öfgakenndu skyndimegrun og allt umtalið frá Kim í kringum þetta, ennþá verra,“ segir Silja Björk.
Kardashian sagði einnig frá því hvernig hún ætlaði ekki að mæta á Met Gala nema ef hún myndi ná að léttast nóg til þess að passa í kjólinn sjálfan, þrátt fyrir það að hún hafi aðeins fengið að vera í honum í nokkrar mínútur áður en hún skipti yfir í eftirlíkinguna.
„Við erum greinilega ekki komin lengra en þetta og það er alltaf ömurlegt að sjá. Það er svo leiðinlegt að upplifa það að samfélagið og slúðurpressan séu ennþá með útlit á heilanum og geri ennþá samansem merki milli virði okkar sem manneskjur og útlits okkar. Svona sögur, eins og þessi öfgamegrun hennar Kim, þær selja. Þessar sögur, þessar fréttir fá „clicks” og það borgar reikningana. Fólk elskar að hata Kim, fólk er forvitið um hvernig hún léttist, fólk er jafnvel hneykslað og það gerir það að verkum að umræðan helst á lofti mun lengur en hún á nokkurn tíman skilið.“