Kári Eyvindur Hannesson útskrifast sem fatahönnuður frá Listaháskóla Íslands í næsta mánuði. Hönnun hefur alltaf heillað Kára og kom það ekki á óvart að hann skyldi enda í hönnun af einhverju tagi.
„Þegar ég útskrifaðist úr menntaskóla var ég með ófá áhugamál og því var úr mörgu að velja. Áhuginn fyrir fatahönnun var þá búinn að þróast talsvert og ég vissi að ég myndi vilja fara í einhvers konar hönnunargrein. Sú grein sem var í fyrsta sæti hjá mér var fatahönnun,“ segir Kári.
„Ég var ekki með neinar hugmyndir um hvernig skólinn myndi ganga fyrir sig. Ég hafði ekki snert saumavél frá því í grunnskóla, þannig ég var á algjöru grunnstigi þegar kom að tækni og þekkingu á því hvernig föt eru gerð frá grunni,“ segir Kári sem lærði eitthvað nýtt á hverjum degi í náminu.
Kári stendur á tímamótum nú þegar hann er að útskrifast. Hann játar að það sé að vissu leyti skrítin tilfinning en á sama tíma eru spennandi tímar framundar og margar dyr sem opnast.
Kári sýndi útskriftarlínu sína ásamt samnemendum á tískusýningu í Hafnarþorpinu í byrjun maí. Kári vann sína línu út frá tíma, aldri og fegurðinni sem því fylgir.
Kári segir spennandi að vinna á mörkum kven- og karlfatnaðar. „Eins og sást á sýningunni, þá vildi ég hafa bæði karla og konur. Karlmannsfatnaður er ákveðið mengi sem er hægt og rólega að víkka og bilið á milli karl- og kvenkynsfatnaðar er sífellt að minnka. Ég er ekki viss um hvar ég ætla að staðsetja mig en í augnablikinu er hlutleysið mest heillandi. Hver og einn líkami á skilið þann fatnað sem einstaklingurinn hrífst af og vill klæðast til frambúðar. Mitt starf er að verða að þeirra óskum.“
Vel gekk að vinna línuna en í náminu kom Kári sér upp öguðum vinnubrögðum.
„Stærsta hindrunin er yfirleitt tíminn. Maður vill komast frá punkti A til punkts B á vandvirkan máta en svo koma upp spurningar um hvernig maður getur gert einhvern tiltekinn hlut. Þá þarf maður einungis að gefa sér tíma til að komast að svörunum. Í gegnum skólann þróaði ég með mér ákaflega strangan vinnuaga og hæfileikann til að spá fyrir um flestar þær hindranir sem líklegt er að rekast á í öllu ferlinu. Þegar hindranir koma upp, þarf maður bara að læra að aðlagast þeirri stöðu og gefa sér svigrúm til þess að finna lausnir á vandanum.“
Hvað heillar þig í tísku í dag?
„Fatamerki og hönnuðir sem byggja hönnun sína á einlægum og sönnum forsendum og falla ekki fyrir peningnum í fjöldaframleiðslunni. Þau sem eru með raunveruleg markmið um sjálfbærni og sýna fram á óaðfinnanlegt handverk þegar kemur að hönnun og saumaskap til að fatnaðurinn endist þér sem lengst.“
Myndir þú klæðast fötunum sem þú hannar og eru þau endurspeglun á þínum stíl?
„Ég hef ekki verið að hanna föt í þeim tilgangi að klæðast þeim sjálfur. En núna þegar ég þarf ekki að svara til skólans og hef tíma til að einbeita mér ófyrirgefanlega mikið að því sem ég heillast mest af, þegar kemur að hönnun fatnaðar og mínum eigin stíl, gæti það breyst. Ég byrjaði á algjörum núllpunkti og hef bætt mig gríðarlega en það er ákveðið hæfnisstig sem ég vil komast á til að klæðast því og selja það sem ég hanna.“
Ertu spenntur fyrir því að vinna í íslensku tískuumhverfi eða langar þig að fara utan?
„Hverjar og einar dyr sem hafa opnast eftir útskriftina bjóða upp á mismunandi möguleika til að öðlast meiri þekkingu, tækni og innsýn inn í heim fatahönnunar. Ég held að ég vilji hafa höfuðstöðvar á Íslandi. Til að komast þangað mun ég e.t.v. þurfa að taka þátt í verkefnum sem leiða mig út fyrir landsteinana, einu sinni eða oftar. Það eru engar réttar eða rangar dyr til að ganga í gegnum, þannig að ég er opinn fyrir öllu. Í sumar er ég að fara hanna aðra fatalínu og rannsaka jurtalitun á vegum Kópavogsbæjar. Áhugasamir geta fylgst með því ferli á Instagram á @karieyvindur.“
Níu nemendur voru í útskriftarhóp fatahönnunarnema að þessu sinni. Hér fyrir neðan má sjá útskriftarlínur þeirra Örnu Ingu Arnórsdóttur, Atla Geirs Alfreðssonar, Auðar Ýrar Gunnarsdóttur, Eydísar Elfu Örnólfsdóttur, Fawencha Rosa, Halldórs Karlssonar, Teklu Sólar Ingibjartsdóttur og Muna Jakobssonar.