Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem er að íhuga hjáveituaðgerð.
Sæl.
Myndir þú ráðleggja 68 ára gamalli konu sem er 167 cm á hæð og 90 kg. að fara í hjáveituaðgerð eða annars konar megrunaraðgerð? Viðkomandi er í nokkuð góðu formi, fer í ræktina þrisvar í viku og gengur 4-8 km. á dag þess á milli.
Kv,
ME.
Sæl og takk fyrir spurninguna.
Ég framkvæmi ekki hjáveitu- eða aðrar megrunaraðgerðir en fæ vissulega oft fólk til mín á stofu sem á eftir að létta sig fyrir aðgerðir (oftast brjóst eða svuntur). Það eru í grófum dráttum þrjár aðferðir við að létta sig. Í fyrsta lagi að auka hreyfingu og breyta mataræði (fækka hitaeiningum og borða hollari mat). Þetta þekkjum við öll og er auðvitað það sem mælt er með þegar fólk er í yfirþyngd. Þinn þyngdarstuðull er 32,3 kg/m2 sem er lægra en ég tel að miðað sé við til þess að framkvæma hjáveitu- eða megrunaraðgerðir.
Það sem hefur bæst við undanfarin ár, sem meðferð við yfirþyngd, eru lyf í sprautuformi og gefin annað hvort einu sinni í viku eða daglega. Þessi lyf eru sykursýkislyf og líkja eftir náttúrulega hormóninu GLP-1 sem er losað úr þörmum eftir máltíðir og hefur margvísleg áhrif á stjórnun glúkósa og matarlyst. Þessi lyf eru eins og öll lyf, ekki án fylgikvilla en margir hafa náð góðum árangri við þyngdartap á þeim.
Ég mæli með því að þú pantir þér tíma hjá þínum heimilislækni og farir yfir það með honum hvort þessi lyf gætu komið til greina hjá þér.
Gangi þér vel og með bestu kveðjum,
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þórdísi spurningu HÉR.