Laugardaginn 4. júní verður mikið fjör í Hringekjunni þar sem verslunin mun kynna spennandi nýjung. Verkefnið kalla þau Hringekjan Endurskapað og hefur það markmið að bjóða upprennandi hönnuðum rými til að hanna og koma í sölu vörum framleiddum úr afgangstextíl og öðrum umhverfisvænum efnum.
„Hjá okkur hóf nýlega störf fatahönnuðurinn Arna Lísa Traustadóttir sem hefur sérhæft sig í að hanna með uppvinnslu efna í huga, en hún mun halda utan um verkefnið,“ segir Jana Maren Óskarsdóttir, annar eigandi Hringekjunnar.
„Markmiðið er að gera þetta að föstum lið í okkar starfsemi, en með þessu þrepi inn í hringrásina okkar getum við betur nýtt þann textíl sem fellur til í söluferlinu.“
Hringekjan er hringrásarverslun þar sem fólk getur selt fötin sem liggja ónotuð inn í fataskáp. Verslunin mun um helgina kynna fyrsta lið verkefnisins í samstarfi við fatahönnuðinn Isabelle Bailey, Seam STRESS. Isabelle lærði fatasaum og saumar eingöngu úr notuðum fötum og textíl.
„Hún hefur, ásamt Örnu Lísu, verið að hanna og sauma virkilega vandaða fjölnota poka úr endurnýttum textíl, en við vonum að þeir verði komnir í sölu hjá okkur í fyrri hluta júní. Einnig erum við að vinna að nýjum vef þar sem við munum gera Hringekjan Endurskapað verkefninu hærra undir höfði og birta upplýsingar og vörur þeirra hönnuða sem taka þátt í verkefninu með okkur,“ segir Davíð Örn Jóhannsson, meðeigandi Hringekjunnar.
Lína Isabelle verður frumraun Hringekjunnar í útgáfu á fatalínu sem framleidd er innanhúss. „Allar vörur eru einstakar og eru því í raun klæðileg listaverk. Hægt verður að sérpanta ákveðna stíla í ólíkum stærðum þar sem kúnninn velur úr því efni sem til er hjá okkur hverju sinni,“ segir Jana.
Boðið verður upp á lifandi tónlist og léttar veigar í versluninni sem verður opin til klukkan 18 og allir velkomnir að taka þátt í gleðinni.