Verið er að merkja verslun 66°Norður í Lundúnum á Bretlandseyjum. Fyrirhugað er að verslunin opni við Regent Street í haust og er undirbúningur í fullum gangi.
Gatan er ein sú fjölfarnasta í borginni og fara merkingar verslunarinnar varla fram hjá nokkrum sem á leið um götuna.
Verslunin verður sú fyrsta sem 66°Norður rekur utan Íslands og Danmerkur. Fyrsta verslun fyrirtækisins í Kaupmannahöfn opnaði árið 2014 og í dag eru tvær verslanir þar í borg.
66°Norður hefur átt í samstarfi við þarlenda fataframleiðendur og hönnuði undanfarin ár. Verslun fyrirtækisins á Regent Street verður flaggskip fataframleiðandans að sögn Helga Rúnars Óskarssonar, forstjóri 66°Norður.
„Netverslun og viðskipti breskra ferðamanna hér á landi hafa gengið vel og gefa fyrirheit um að viðskiptamannagrunnur 66° Norðurs í Bretlandi sé traustur. Félagið hefur einnig átt í samstarfi við breska aðila. Við erum því bjartsýn á að 66° Norður verði vel tekið í London og erum full tilhlökkunar að opna nýju verslunina,“ segir Helgi Rúnar.