Ísadóra Bjarkardóttir, dóttir tónlistarkonunnar Bjarkar Guðmundsdóttur og leikstjórans Matthew Barney, hefur verið að gera það gott í fyrirsætuheiminum en hún sat nýlega fyrir í auglýsingaherferð fyrir haustlínu tískuhússins Miu Miu.
Hún gengur til liðs við stórstjörnur á borð við Emily Ratajkowski, Sydney Sweeney og Emma Corrin sem hafa einnig setið fyrir vörumerkið. Ísadóra er fædd 3. október árið 2002 og því aðeins 19 árs gömul.
Á myndunum er Ísadóra með nýja skartgripalínu Miu Miu sem er hönnuð af Nathalie Djurberg og Hans Berg. Í línunni er að finna litríka skartgripi sem sækja innblástur í blóm og pillur.
„Ljósmyndin er tekin af Julien Martinez Leclerc og kynnir leikarann Ísadóru Bjarkardóttur fyrir alheiminum,“ segir í fréttatilkynningu tískuhússins. Það hefur verið nóg að gera hjá Ísadóru á árinu, en hún lék nýlega frumraun sína í kvikmyndinni The Northman. Í kvikmyndinni fara ásamt Ísadóru móðir hennar, Björk, Nicole Kidman og Alexander Skarsgård með hlutverk.