Lágvöruverslunin Bónus á stað í hjörtum landsmanna. Hvern hefur ekki dreymt um að sporta sig í bol með Bónus-grís, með derhúfu eða hettupeysu? Nú er hægt að láta drauminn rætast því Bónus hefur sett fatalínu sína í sölu í tveimur verslunum, í Kjörgarði og á Smáratorgi.
„Gamli Bónusgrísinn átti sérstakan stað í hjörtum Íslendinga. Eftir að við uppfærðum grísinn þá höfum fengið fjölda fyrirspurna um það hvort að hægt sé að fá boli og annan fatnað með grísnum. Við ákváðum þess vegna að verða við þessari ósk viðskiptavina og heiðrum nú gamla grísinn með svokallaðri retro-línu sem aðeins er fáanleg í svörtu. Vörurnar með nýja grísnum eru heldur í léttari ljósum lit sem passar vel við skæra bleika litinn. Bónusgrísinn er samofinn íslenskri menningu og því var tilvalið að fyrsta fatalína Bónus kæmi út rétt fyrir Menningarnótt,” segir Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus en hann er maðurinn á bak við línuna ásamt Sigurði Bragasyni, grafískum hönnuði hjá fyrirtækinu.