Fann sjálfsöryggið í áhugamálinu

Ragnheiður Júlíusdóttir hefur einstakt auga fyrir fallegri förðun.
Ragnheiður Júlíusdóttir hefur einstakt auga fyrir fallegri förðun.

Handboltakonan og förðunarfræðingurinn Ragnheiður Júlíusdóttir hefur einstakt auga fyrir fallegri förðun, en hún hefur verið að gera það gott bæði á Instagram og TikTok þar sem hún deilir skemmtilegum förðunarmyndum og myndböndum með fylgjendum sínum. 

Ragnheiður spilar handbolta, bæði með meistaraflokki Fram og landsliði Íslands, en samhliða boltanum stundar hún nám í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri. Hún lauk diplómanámi hjá Makeup Studio Hörpu Kára árið 2019 og hefur verið að farða stelpur fyrir ýmis tilefni heima við síðustu ár. Við fengum að skyggnast í snyrtibuddu Ragnheiðar sem gaf okkur góð förðunartrix fyrir haustið. 

Hvenær byrjaðir þú að mála þig?

„Mig minnir að ég hafi byrjað að fikta eitthvað með snyrtivörur þegar ég var svona 12 eða 13 ára. Ég var farin að stela maskaranum hennar mömmu og suða í henni að fá að vera með hann á mér þegar ég fór eitthvað fínt. Það var svo um 14 ára aldurinn sem ég byrjaði að mála mig meira og bætti við farða, hyljara og sólarpúðri.“

„Ég var frekar óörugg með mig á þessum aldri. Ég var frekar hvít með miklar freknur og ljósrauðar augabrúnir og leitaði mjög mikið í snyrtivörur til að verða öruggari.“

Hvernig farðar þú þig dagsdaglega?

„Daglega byrja ég á augabrúnunum. Ég móta þær með mjóum blýanti og nota glært augabrúnagel til að ýta hárunum aðeins upp. Svo nota ég farða með léttri til miðlungs þekju, hyljara undir augun til að birta svæðið og fela bláma, nóg af krem- og púðurkinnalit og laust púður á t-svæðið. Svo set ég sólarpúður á kinnbeinin og á augun, og enda svo á Telescopic maskaranum frá Loréal eftir að ég bretti augnhárin með Shisheido augnhárabrettaranum.“

En þegar þú ferð eitthvað fínt?

„Þegar ég fer eitthvað fínt farða ég mig svipað og daglega en ég nota oftast farða með meiri þekju. Mínir uppáhaldsfarðar upp á síðkastið hafa verið Shisheido farðarnir, Touché Eclat frá YSL og Luminous Silk frá Armani. Svo ýki ég aðeins augun með því að nota dekkri skyggingarliti og augnblýant með spíss, en þá nota ég oftast Epic Ink Liner frá NYX, annað hvort brúnan eða svartan.“

„Svo má ekki gleyma augnhárum, en þau fullkomna förðunina. Ég nota mest stöku augnhárin frá Model Rock eða Duos & Trios frá Eylure, en þau eru rosalega auðveld í notkun og þægileg á augunum.“ 

„Í lokin nota ég brúntóna drappaðan varablýant og gloss yfir. …
„Í lokin nota ég brúntóna drappaðan varablýant og gloss yfir. Lokaskrefið er svo All Nighter Setting spreyið frá Urban Decay, svo förðunin haldist falleg sem lengst.“

Hvernig hugsar þú um húðina?

„Ég hugsa mjög vel um húðina mína og hef alltaf gert, enda er góð húðumhirða lykillinn að fallegri förðun. Á kvöldin þríf ég húðina með mildum hreinsi, oftast tvisvar ef ég er mikið máluð. Þrisvar í viku nota ég sýrur og virk efni til þess að hjálpa mér við bólur og áferð. Ég nota Mandelic Acid og Benzyol Peroxide, en þessi tvö innihaldsefni vinna mjög vel saman. Eftir það nota ég milt og gott rakakrem fyrir svefninn.“

„Á morgnanna þríf ég andlitið með ísköldu vatni og set á mig sólarvörn, sama hvernig viðrar. Fyrir mér er sólarvörnin bara eins og meðal fyrir húðina, en hún hefur hjálpað mér rosalega að jafna húðlit og áferð ásamt því auðvitað að verja mig frá skaðlegum geislum sólarinnar. Fyrir nokkrum árum var ég alltaf með sjö til átta skrefa rútínu sem gerði bara ekkert fyrir mig, en um leið og ég einfaldaði hana sá ég mikinn mun.“

„Einföld en áhrifarík rútína er málið að mínu mati.“
„Einföld en áhrifarík rútína er málið að mínu mati.“

Hefur þú þurft að takast á við vandamál tengd húðinni?

„Já því miður. Ég hef verið að díla við feita bóluhúð síðan ég var í menntaskóla og er enn. Ég hef lesið mig til um allskonar vörur, innihaldsefni, tæki og tól í gegnum tíðina. Ég hef farið oft til húðlæknis og prófað ýmis lyf, en mér fannst ekkert vera að hjálpa mér nógu vel og ég var ekkert spennt fyrir því að taka inn húðlyf.“

„Árið 2020 fann ég fyrirtæki sem heitir Carm Acne Skincare á Instagram, en eftir að ég byrjaði að nota þær vörur hefur húðin mín verið allt önnur. Síðustu ár hef ég líka passað mig að skoða innihaldsefni í snyrtivörunum sem ég kaupi. Ef varan er með mörg innihaldsefni sem stífla svitaholur þá kaupi ég hana ekki því húðin mín stíflast auðveldlega.“

Hvað tekur þig langan tíma að gera þig til?

„Það er mjög mismunandi. Ég get verið mjög fljót að gera mig til, en líka mjög lengi. Ef ég er að fara eitthvað fínt þá elska ég ekkert meira en að setjast niður í rólegheitum í sloppnum mínum með góða tónlist og taka minn tíma. Það er eins og einhverskonar hugleiðsla fyrir mig og getur tekið allt að tvo tíma. En dagsdaglega er ég kannski í 15 til 20 mínútur að gera mig til.“

Er eitthvað sem breytist í förðunarrútínunni þegar fer að hausta?

„Nei, vanalega ekki. Förðunarrútínan mín er alls ekki árstíðabundin og ég held mig nánast alltaf við sömu rútínu. Ef það væri eitthvað þá væri það kannski aukinn raki fyrir húðina þegar það fer að kólna eða rauður varalitur yfir jólin.“

Ragnheiður með glæsilega hátíðarföðrun.
Ragnheiður með glæsilega hátíðarföðrun.

Er eitthvað trend eða snyrtivara sem þú heldur að muni slá í gegn í haust?

„Undanfarið finnst mér „clean girl“ farðanir vera að koma sterkt inn, þá sérstaklega á TikTok. Hugmyndin á bakvið það er að reyna að ýta undir þína náttúrulegu fegurð með því að nota minna en meira, en þá koma krem vörurnar sterkt inn og ég held að það eigi eftir að halda áfram inn í haustið.“

„Einnig finnst mér margir vera að uppgötva krem kinnaliti upp á nýtt, en mér finnst þeir ómissandi í rútínunni. Ég ber hann efst á kinnbeinin og aðeins yfir nefið til að lífga upp á förðunina.“

„Varðandi snyrtivörur þá finnst mér bera hæst yfir Charlotte Tilbury á markaðinum þessar mundir, en allt sem hún gefur út verður strax uppselt. Ég held hún haldi áfram að slá í gegn í haust.“

Hvað er helst að finna í þinni snyrtibuddu?

„Þegar ég pakka í snyrtibudduna mína tek ég oftast með mér bæði léttan farða og þekjumeiri farða. Undanfarið hef ég verið að elska nýja Loréal serum-farðann og litaða dagkremið frá Shiseido eða It Cosmetics, en fyrir fínni farða væri það Synchro Skin frá Shiseido eða Touché Eclat frá YSL.“

„Undanfarið er ég nánast alltaf með Lancome Idolé hyljarann í buddunni, en hann er ómissandi. Ég er með Veil púðrið frá Hourglass, Kremskyggingu frá Lancóme eða HudaBeauty og kinnaliti frá Rare Beauty. Fyrir augabrúnirnar er ég með NYX Micro Brow sem er frábær mjór blýantur í augabrúnirnar. Ég ýti þeim svo upp með NYX Brow Glue eða Brow Freeze frá Anastasia Beverly Hills. Svo er ómissandi að vera með eitthvað fyrir varirnar, varablýant, gloss eða varasalva, og að lokum Telescopic maskarann minn frá Loréal.“

Uppáhaldssnyrtivörur?

„Ef ég þyrfti að velja eina vöru þá væri það augnhárabrettarinn frá Shisheido sem ég nota alla daga ársins, jafnvel þó ég sé ómáluð. Telescopic maskarinn frá Loréal hefur svo verið minn uppáhalds í mörg ár. Tvær frekar nýlegar vörur sem ég hef keypt aftur eru Idolé hyljarinn frá Lancóme og Brow Glue frá NYX, en allra nýjustu vörurnar sem ég er að elska eru krem kinnalitirnir frá Rare Beauty í litunum Joy og Happy.“

Hvert er þitt uppáhaldsförðunartrend?

„Eitt af nýjustu trendunum er að ýkja fegurðarbletti og setja gervifreknur með dökkum blýant eða gervi freknupenna, en mér finnst það mjög fallegt og gerir förðunina náttúrulegri. Ég er heppin að vera sjálf með freknur og hélt ég myndi aldrei nota þetta trend en það kom mér á óvart og hefur virkilega heillað mig.“

„Svo elska ég að stækka varirnar aðeins með því að nota dökkbrúnan varablýant og ljóst gloss yfir. Ljómandi húð er líka alltaf klassískt og fallegt trend.“

Hvað dreymir þig um að eignast í snyrtibudduna?

„Vá það er svo margt. Það sem er á óskalistanum núna er setting-spreyið og nýjasta krem skyggingavaran frá Charlotte Tilbury, Prisme Libre púðrið frá Givency, og örugglega allt sem förðunarfræðingur Kim Kardashian er að gefa út, Mario Dedivanovic.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda