Byrjaði að þræða Kolaportið 13 ára

Sigríður Margrét Ágústsdóttir hefur fundið margar fallegar flíkur á nytjamörkuðum. …
Sigríður Margrét Ágústsdóttir hefur fundið margar fallegar flíkur á nytjamörkuðum. Hún fann þennan fallega mokkajakka á kílómarkaði Rauða krossins.

Bloggarinn Sigríður Margrét Ágústsdóttir starfar við framleiðslu á markaðsefni, en þar að  auki er hún mikill sérfræðingur í því að gramsa eftir gersemum á fata- og nytjamörkuðum. Sigríður var aðeins 13 ára gömul þegar hún byrjaði að þræða Kolaportið um helgar. Áhugamálinu deilir hún með kærasta sínum, Guðmundi Ragnarssyni, en þau hafa heimsótt margar búðir með notaðar vörur víðs vegar um heiminn og því þaulreyndir „thriftarar“.

Sigríður hefur mikinn áhuga á öllu sem við kemur hönnun, en hún er með BA-gráðu í vörumerkjahönnun frá Copenhagen School of Design and Technology og stundar nú meistaranám í markaðsfræði við Háskólann í Reykjavík. Henni þykir mikilvægt að endurnýta notaðar flíkur og muni, bæði út frá umhverfissjónarmiði en einnig til þess að spara fé og styrkja um leið góð málefni.

Sigríður er dugleg að deila því sem hún finnur á fata- og nytjamörkuðum, bæði á Instagram og á blogginu Trendnet, en þar má finna sérlega fallegar myndir af skemmtilegum fatastíl hennar ásamt góðum ráðum. 

„Þegar maður verslar notuð föt þá er maður ekki að …
„Þegar maður verslar notuð föt þá er maður ekki að leitast í trendin heldur eitthvað fallegt sem grípur augað.“

Hvenær vaknaði áhugi þinn á tísku?

„Þegar ég var lítil pældi ég mikið í hverju ég vildi vera og fannst mjög gaman að klæða mig fínt. Í áttunda bekk fór ég að prófa nýja hluti og byrjaði að þræða Kolaportið og fleiri fata- og nytjamarkaði. Þá jókst áhugi minn á tísku og stíllinn minn breyttist samhliða því.“

Áttu þér uppáhaldsbúðir hér á Íslandi?

„Nytjamarkaðurinn ABC Barnahjálp, Basarinn, Hertex, Nytjamarkaður Samhjálpar, Rauði krossinn og Góði hirðirinn. Mér finnst einnig mjög gaman að þræða Verzlanahöllina og Hringekjuna.“

Ertu með góð ráð til að finna flott notuð föt?

„Fara reglulega í búðir með notuð föt, fara í búðir sem eru ekki eins vinsælar, fara vandlega í gegnum allt og hafa augun opin. Mér finnst ég langoftast uppgötva ólíklegustu gersemar á stöðum þar sem maður á síst von á því.“

Sigríður fann þennan fallega Victoria's Secret náttkjól í „thrift“ búð …
Sigríður fann þennan fallega Victoria's Secret náttkjól í „thrift“ búð í Reykjavík sem hún notar sem sumarkjól - skemmtileg endurnýting!

Hvar er sniðugt að byrja?

„Mér finnst mjög sniðugt, ef áhugi er fyrir góðum gallabuxum, að splæsa í notaðar Levi's gallabuxur. Allar mínar Levi's buxur eru notaðar og eiginlega bara flottari fyrir vikið. Mér finnst þær fallegri þegar það er búið að veðra þær aðeins. Einnig er mjög gott fyrir umhverfið að kaupa notaðar gallabuxur í staðinn fyrir að splæsa alltaf í nýjar, en gallabuxnaframleiðsla mengar rosalega útaf litarefninu sem er notað við framleiðsluna.“

Levi's 501 buxur sem Sigríður keypti notaðar.
Levi's 501 buxur sem Sigríður keypti notaðar.

„Önnur sniðug hugmynd að fyrstu kaupum á notuðum fatnaði er blazer-jakki, til dæmis notaður herra blazer-jakki sem er of stór, en að mínu mati passa slíkir jakkar við allt.“

Hver eru nýjustu kaupin þín á notuðum fatnaði?

„Ég fór til Alicante á Spáni í sumar og prófaði að fara í nokkra nytjamarkaði þar, sem var mjög skemmtilegt og kom mér verulega á óvart. Þar fann ég notaðar og mjög vel með farnar Jean Paul Gaultier gallabuxur á mjög góðu verði.“

„Ég fann mér einnig Boston Birkenstock skó í Rauða krossinum um daginn og hef ekki farið úr þeim síðan, þeir eru svo þægilegir og mjög vel með farnir. Nýir kosta þeir sirka 21 þúsund krónur en þeir kostuðu mig aðeins 4000 krónur.“

Hér notar Sigríður trefil frá Missoni sem topp.
Hér notar Sigríður trefil frá Missoni sem topp.

Hver eru bestu kaupin þín á notuðum vörum?

„Þegar ég bjó í Kaupmannahöfn nældi ég mér í „vintage“ Fendi Baguette-tösku, en töskuna keypti ég af danskri konu inn á dba.dk, síðu svipaðri bland.is hér á Íslandi. Ég er nokkuð viss um að þetta séu allra bestu kaupin, en Fendi-töskur eru mikils virði. Ég fékk töskuna á 13.500 krónur, en Fendi Baguette kostar yfirleitt í kringum 385 þúsund krónur.“

Sigríður með Fendi töskuna.
Sigríður með Fendi töskuna.

„Vert er að taka það fram að ákveðin óvissa fylgir alltaf þegar maður kaupir notaðar merkjavörur af einhverjum á netinu, um hvort varan sé í raun og veru ekta og því mikilvægt að spyrja seljandann um vöruna sjálfa. Til dæmis getur verið gott að athuga hvort seljandinn eigi enn kvittun eða aðra sönnun. Konan sem seldi mér þessa tösku átti ábyrgðarkort (e. warranty card) þannig það var öruggt að taskan væri ekta.“

Þennan fallega Givenchy blazer-jakka fann Sigríður í Hertex.
Þennan fallega Givenchy blazer-jakka fann Sigríður í Hertex.

Hvernig veit maður hvort merkjavörur séu ekta?

„Það er framleitt mikið af fölsuðum vörum og mikið af þeim endar á nytja- og fatamörkuðum, eða í Rauða krossinum. Þess vegna er mjög mikilvægt að kynna sér muninn á ekta og falsaðri vöru. Ég mæli með að skoða saumana, efnið og rennilásinn vel. Ef þetta er taska þá er mikilvægt að skoða hvernig málmurinn er, ásamt öðrum smáatriðum. Langoftast er lélegur frágangur á fölsuðum vörum og saumarnir eru ekki eins vandaðir og á ekta merkjavöru frá Ítalíu, sem dæmi.“

Hver eru verstu kaupin á notuðum vörum?

„Það er ekkert eitt sem stendur upp úr, en ef ég kaupi eitthvað sem ég sé eftir þá sel ég vöruna og hringekjan heldur áfram í stað þess að láta vöruna hanga inn í skáp.“

Sigríður finnur oft miklar gersemar fyrir heimilið á Nytjamörkuðum.
Sigríður finnur oft miklar gersemar fyrir heimilið á Nytjamörkuðum.

Í hvaða borg finnst þér skemmtilegast að kaupa notað?

„Uppáhaldsborgin er Lundúnir í Bretlandi. Það er mjög gott úrval þar og margir mismunandi nytjamarkaðir. Mig dreymir svo um að fara til Los Angeles í Bandaríkjunum, ég hef heyrt að það sé ótrúlega gaman að versla þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda