Rakel Ósk Guðbjartsdóttir, snyrtifræðingur og eigandi Eliru, segir mikilvægt að byrja að huga að öldrun húðarinnar fyrir þrítugt. Sjálf fer hún aldrei að sofa með farða og óhreina húð.
„Það sem skiptir mestu máli í húðumhirðu er að vera duglegur. Það þarf að hreinsa á sér andlitið kvölds og morgna, það er mikilvægt að nota sólarvörn alla daga vikunnar og nota virku serumin og kremin alla daga svo að árangur sjáist,“ segir Rakel.
Hvernig er húðrútínan þín?
„Ég passa upp á að vernda húðina mína á morgnana, þess vegna nota ég C-vítamín, svo set ég gott rakaserum, dagkrem, augnkrem og sólarvörn. Oft er líka hægt að finna vörur sem hafa tvo eða fleiri eiginleika svo þú getir sparað þér sporin.
Á kvöldin hreinsa ég húðina vel eftir áreiti dagsins, einu sinni til tvisvar í viku nota ég djúphreinsi og ávaxtasýrur til að djúphreinsa og skrúbba húðina létt. Svo nota ég gott krem til að næra húðina eða retinolgjafa til að leiðrétta línur og misfellur. Retinol er einstaklega virkt efni sem hjálpar til við húðendurnýjun og dregur úr öldrun húðarinnar og hjálpar einnig til við að draga úr bólum.“
Er eitthvað sem þú gerir alltaf sama hvað er mikið að gera í vinnu og einkalífi?
„Ég er einmitt duglegri að hugsa um húðina og dekra við hana þegar það er mikið að gera. Þá passa ég að hreinsa vel á kvöldin og forðast það eins og heitan eldinn að hoppa upp í rúm með farða og óhreinindi dagsins. Sunnudagar eru svo algjörir andlitsmaskadagar, ég mæli með að hoppa fram úr, þrífa húðina létt og skella á sig smá maska sem vinnur á meðan þú drekkur morgunkaffið enn í sloppnum.“
Hvað eru konur helst að gera vitlaust við húðumhirðu?
„Mér finnst rosalega algengt að við ætlum okkur aðeins um of til að byrja með. Algengt er að fólk komi til mín sem er aðeins farið að sjá fínar línur og ætlar bara að skella sér beint í sjö skrefa meðhöndlun. Það er langbest að byrja rólega ef þú hefur ekki verið duglegur að hugsa um húðina, byrja að setja inn góða hreinsun, raka og sólarvörn og svo bæta hægt og rólega inn í húðumhirðuna, þá er miklu líklegra að þú gefist ekki upp. Svo eru líka til ýmis merki eins og til dæmis Augustinus Bader sem hefur sett öll mikilvægustu innihaldsefnin sem við þurfum til að auka heilbrigði húðarinnar í kremin sín, þannig að þetta þarf ekki að vera flókið.“
Hvenær þurfum við að fara að hugsa um að koma í veg fyrir öldrun húðarinnar?
„Því miður hafa rannsóknir sýnt að öldrun húðarinnar hefst í kringum 25 ára aldurinn, þá minnkar kollagenframleiðsla húðarinnar og við það minnkar teygjanleiki hennar og fyrstu merki öldrunar fara að sjást. Þannig að svona 27 til 30 ára er voða gott að byrja að huga að því að fara að bæta virkum efnum í húðumhirðuna en fyrir það er rosa gott að temja sér að hreinsa hana og þá sérstaklega vel á kvöldin og nota góðan raka og sólarvörn.“
Er hægt að vera með mjög góða vöru en nota hana vitlaust þannig að hún geri ekkert fyrir mann?
„Það er hægt að vera með góðar vörur og vannota þær og mögulega ofnota þær. Það er nauðsynlegt að nota vörurnar sem þú átt, þær virka því miður ekkert inni í skáp og það þarf að nota þær á hverjum degi.
Svo finnst mér ég líka sjá svolitla ofnotkun og þá sérstaklega með vörur sem djúphreinsa og skrúbba húðina. Þú þarft ekki að skrúbba húðina nema einu sinn til tvisvar í viku ef þú notar ávaxtasýrur með ákveðnum styrkleika eða létta kornamaska, algjör óþarfi að vera alltaf að skrúbba húðina í morgunsturtunni.“
Býrðu yfir einföldu, ódýru og skotheldu fegrunarráði?
„Nota sólarvörn, það er það mikilvægasta sem kemur í veg fyrir ótímabæra öldrun húðarinnar.“