Helga Hlín Hákonardóttir, eigandi og lögmaður hjá Strategíu, þurfti að endurskoða það sem hún notaði á húðina þegar hún byrjaði að finna fyrir ofnæmisviðbrögðum. Hún segir alltaf hægt að finna tíma fyrir æfingar og góða húðrútínu.
„Ég þarf að passa vel upp á húðina þar sem ég er bæði með exem og ofnæmi og húðin er að upplagi mjög þurr. Rútínan mín er reyndar mjög einföld og snýst um að halda húðinni hreinni, rakri og vel nærðri. Ég fer oft í sturtu og þarf því að huga vel að því húðin þorni ekki of mikið. Ég legg mikla áherslu á að húðin á líkamanum fái sína umhirðu og næringu, ekki síður en andlit og háls. Það er nefnilega þannig að öll húðin okkar eldist og ekki síður mikilvægt að halda húðinni á líkamanum frísklegri og vel nærðri. Body Serum frá Bioeffect er alger töfranæring fyrir húðina og mesta uppgötvun sem ég hef gert þegar kemur að húðinni. Ég ber það á mig nánast alla daga. Og svo ber ég andlitsserum og krem á andlitið bæði kvölds og morgna.“
Helga, sem er fimmtug í dag, byrjaði að fá exem upp úr þrítugu. Hún fékk síðan alvarlegt ofnæmiskast eftir augnháralitun.
„Ég varð mjög veik og lenti á sjúkrahúsi þar sem lítið var hægt að gera því ég var barnshafandi. Ég missti augnhárin og allt andlitið á mér bólgnaði upp. Annað augað lokaðist alveg og það blæddi og vessaði úr augunum þannig að ég leit út eins og ég væri nýstigin út úr boxhring. Í kjölfarið greindist ég meðal annars með ofnæmi fyrir svörtu litarefni, litafesti og fleiri efnum, og hef því þurft að velja andlitsfarða mjög vandlega, en ekki síður húðvörur og allar hreinsivörur,“ segir Helga.
„Snyrtivörurnar voru það fyrsta sem ég þurfti að skoða vandlega, en svo komu hreinsiefni eins og þvotta- og mýkingarefni sem ég er líka með ofnæmi fyrir og reyndar einstaka litaður fatnaður. Engu að síður voru alltaf einhver ofnæmisviðbrögð að dúkka upp og ég lærði ýmislegt nýtt eftir því sem tíminn leið.
Svo fyrir nokkrum árum hreinsaði ég út allar snyrti-, húð og hreinlætisvörur og losaði mig við allar snyrti- og húðvörður sem ég átti. Allar. Leitaði því næst að snyrtivörum sem standast skoðun, til dæmis í Think Dirty-smáforritinu og byrjaði upp á nýtt frá grunni.
Í dag nota ég nær eingöngu sænsku förðunarvörurnar frá Jane Iredale. Fyrir húðina duga húðvörurnar frá Bioeffect mér frá a-ö, sérstaklega Body Serum og Power Cream. Ég nota reyndar allar Bioeffect-vörurnar og nota engar aðrar vörur á húðina, enda frábært að geta keypt hreinar íslenskar vörur sem standast skoðun. Og það heyrir til algerra undantekninga að ég fái ofnæmisviðbrögð í dag. Þá tengi ég það við eitthvað óvænt í mataræði eða nýju umhverfi.“
Kom þér á óvart hvað er í snyrtivörum þegar þú fórst að skoða það?
„Já ég verð að segja það og í gegnum árin hefur maður vaknað til vitundar um hvað er ótrúlega mikið af aukaefnum allt í kringum okkur og ógnvekjandi að sjá áhrifin í umhverfinu okkar og jafnvel á okkur mannfólkið. Við verðum að takast á við og ræða tregðulögmálið við að snúa frá skaðlegri hegðun, sem sagt að banna skaðleg innihaldsefni eða sölu á skaðlegum vörum. Þá berum við foreldrar líka mikla ábyrgð á að kenna börnunum okkar, en við verðum líka að kenna börnum og unglingum skipulega í gegnum skólakerfið á heilsu og lífstílstengda sjúkdóma. Þetta er samfélagsverkefni sem byrjar heima hjá hverju og einu okkar.“
Þegar kemur að förðunarvörum segist Helga leggja meira upp úr frísklegu útliti en mikilli förðun.
„Ég hef alltaf málað mig lítið. Sérstaklega á sumrin þegar maður er sólbrúnn og sætur. Þá læt ég maskarann duga en legg þess þá heldur áherslu á að húðin sé vel nærð og frískleg og þar með minni þörf fyrir farða.
Annars smelli ég á mig lituðu dagkremi, smá bleikum kinnalit og ef mikið sendur til þá set ég á mig augnblýant og gloss og finnst það oft reyndar orðið aðeins of mikið. Skvísustælarnir eru minnst í farðanum og áherslan miklu heldur á heilsuna og frísklegt útlit. Reyndar er elsta dóttir mín förðunarfræðingur með meiru, og kemur mömmu sinni til bjargar á stórhátíðum. Það er reyndar ótrúlega gaman – en rosalega hátíðlegt fyrir mér og algert spari.“
Hreyfing skiptir Helgu miklu máli og stundar hún ólympískar lyftingar af krafti.
„Ólympískar lyftingar eru svo margt fyrir mér. Ég hef mikla hreyfiþörf og eftir því sem aldurinn færist yfir þurfum við að gefa okkur meiri tíma til að halda heilsu og styrk. Og ólympísku lyftingarnar henta mjög vel til að öðlast og viðhalda liðleika og styrk, sem er svo mikilvægt fyrir okkur þegar við byrjum að eldast, sérstaklega styrkurinn fyrir okkur konur. Ég hef líka mikinn metnað sem keppnismanneskja og þarna er komin hvatning til að keppa við unga fólkið og bæta sig í tæknilegri íþrótt sem aldrei er hægt að fullkomna. Fyrir utan samfélagið sem er algerleg ómetanleg andleg næring. Enda er fólk af öllum aldri, stærðum og getu að æfa saman og hvetja hvort annað.“
Ásamt því að hreyfa sig mikið, passa hvað hún ber á húðina hugsar Helga einnig vel um mataræðið.
„Mataræðið er síðan alltaf að batna. Við eldum nánast allan okkar mat frá grunni heima og notum hreint og ferskt hráefni. Unninn matur er varla í boði. Við geymum allan mat í glerílátum, enda sér miðjudóttirin um að undirbúa matinn fyrir vikuna á sunnudögum þannig að ísskápurinn er í upphafi viku stútfullur af girnilegum glerskálum sem innihalda holla og næringarríka matarskammta fyrir fyrri hluta vikunnar.“
Hvað gerir þú til þess að dekra við þig?
„Ég reyni að lifa alla daga þannig að ég dekri við sjálfa mig og láti eitthvað gott af mér leiða. Byrja til dæmis alla morgna snemma til að eiga notalega stund til hugleiðslu og dagbókarskrifa. Ég legg mikla áherslu á að vakna úthvíld, taka góða æfingu, sinna hæfilegri vinnu og umgangast fjölskylduna mína og fullt af öðru skemmtilegu fólki sem glæðir daginn lífi og gleði.
Laugardagar eru í uppáhaldi hjá mér. Þá fer ég gjarnan á langa laugardagsæfingu, í smá spa-dekur og pott í kjölfarið og enda í löngum hádegismat með góðum æfingafélögum, sem jafnvel ílengist og endar í góðu grilli um kvöldið. Sunnudagsskrúbbur og maski toppa svo góða helgi.“
Er alltaf tími til þess að hugsa vel um húðina þegar það þarf að sinna vinnu, heimili og mæta á æfingar?
„Þetta er uppáhaldsspurningin mín þegar kemur að heilsu. Auðvitað er tími – spurningin er hins vegar hvort þú hefur vilja og aga til að forgangsraða heilsunni, til dæmis á kostnað samfélagsmiðla og Netflix-þátta. Það má alveg taka frí frá Instagram og hætta í miðjum Netflix-þætti til að gefa sér tíma fyrir sjálfan sig. Hvort sem það er til að ná nægum nætursvefni, æfingu eða dekra við sjálfan sig. Það er enginn annar en við sem gefum leyfi til að þessum tíma sé rænt frá okkur – þannig að þá er heldur enginn annar en við sjálf sem getum gefið okkur hann aftur. Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á einfaldleikann, að halda sig við einfalda og góða rútínu í hverju sem maður tekur sér fyrir hendur.“
Þarftu að hugsa öðruvísi um húðina á veturna en sumrin?
„Nei, ég held sömu rútínunni reyndar og mæti álagi af sólinni með svipuðum hætti og álagi af kulda og þurrki. Ég ber oftar á mig serum við aukið álag vegna veðurs og nota þá Power Cream ef húðin er þyrst og þarf auka raka. Og svo passa ég alltaf upp á að taka Omega 3 olíu og drekka vel af vatni – og þá verð ég bara ekkert betri.“