Eftir áralanga vináttu hófu förðunar- og viðskiptafræðingarnir Heiður Ósk Eggertsdóttir og Ingunn Sigurðardóttir viðskiptasamband sitt árið 2019, en í dag eru þær eigendur Reykjavík Makeup School og HI Beauty. Það er nóg að gera hjá vinkonunum sem hafa unnið að fjölbreyttum verkefnum og hafa þær meðal annars gert sjónvarpsseríur, hlaðvarp og blogg.
„Á þessum þremur árum sem við höfum unnið saman höfum við brasað ansi margt. Við höfum til að mynda stofnað fyrirtækið HI Beauty sem sérhæfir sig í framleiðslu á snertitengdu efni fyrir samfélagsmiðla. Við festum einnig kaup á Reykjavík Makeup School, fluttum hann og gerðum hann upp. Núna erum við svo að vinna að okkar stærsta verkefni til þessa, að gefa út okkar eigið vörumerki,“ segja Heiður og Ingunn.
Föstudaginn 4. nóvember næstkomandi munu Heiður og Ingunn standa fyrir glæsilegum förðunarviðburði á The Reykjavík Edition hótelinu frá klukkan 19 til 22. Þar mun Heiður vera með sýnikennslu á hinni fullkomnu glamúr förðun með vörum frá Lancôme. Við fengum að skyggnast inn í förðunarheim vinkvennanna sem sögðu okkur frá öllu því heitasta í förðun í dag.
Hvað verður helst tekið fyrir á föstudaginn?
„Á Masterclassinu verður sýnd hin fullkomna jólaförðun með okkar uppáhaldsvörum frá Lancôme. Þetta verður klassísk förðun sem allir ættu að ná tökum á með áherslu á kremvörur á húðina.“
Hver eru helstu förðunartrendin þessa dagana?
„Trendin þessa dagana einkennast af ljóma. Ljómandi húð og látlaus augu eru það heitasta þessa dagana og má rekja það til fyrirsætunnar Hailey Bieber sem er „the it girl“ um þessar mundir. Það vilja allir líta út eins og „glazed donut“.“
Hvaða förðunartrix eruð þið að elska um þessar mundir?
„Við erum að elska að blanda saman krem kinnalit og krem ljómavöru og staðsetja efst á kinnbeinið, en það gefur ótrúlega fallegan ljóma. Þegar maður staðsetur kinnalit svona ofarlega gefur það andlitinu smá andlitslyftingu.“
Hvað verður heitast í vetur?
„Við höfum verið að sjá mjög mikið af glossi og dökkum varablýöntum. Á tískuvikunni í París voru allir með dökkbrúna varablýanta og mjög mikinn gloss yfir.“
Hvað þarf fólk að kunna fyrir veturinn?
„Fyrir veturinn mælum við með því að bæta við meiri raka í öll skref, finna sér gott rakakrem, góðan og rakamikinn farða og minnka púður. Húðin verður sérstaklega viðkvæm í veðurbreytingum og því er mjög mikilvægt að hugsa extra vel um hana þá.“
Hvernig verður jólatískan í ár?
„Rauðar varir eru alltaf klassískar um jólin, það er eitthvað svo hátíðlegt við rauða litinn. Við spáum því að hér muni glossinn taka yfir og verða því rauðar „glossy“ varir heitasta lúkkið í ár. Sanseraðir krem augnskuggar eru einfaldir og frábærir til að auka við glamúrinn. Svo er eyelinerinn alltaf á sínum stað yfir hátíðarnar.“
En áramótatískan?
„Tími silfursins er snúinn aftur! Við höfum verið að sjá mjög mikið um silfurlitaðan í fatnaði að undanförnu og er það klárlega búið að smitast yfir í förðunarheiminn. Við munum því sjá mun meira af köldum litum í áramótaförðun í ár.“