Leikkonan Michelle Yeoh var afar glæsileg þegar hún tók á móti Golden Globe-verðlaunum í nótt. Yeoh var í glitrandi síðkjól frá Armani Privé og einstaklega fallega skartgripi frá Moussaieff Jewellers.
Skartgripamerkið Moussaieff er í eigu fjölskyldu Dorritar Moussaieff, eiginkonu Ólafs Ragnars Grímssonar fyrrverandi forseta Íslands.
Yeoh hlaut verðlaunin fyrir besta leik í gaman- og söngleikjaflokknum í myndinni Everything Everywhere All At Once. Yeoh er greinilega mikill aðdáandi Moussaieff Jewellers en hún skartaði fallegum eyrnalokkum frá merkinu á frumsýningu James Bond árið 2021.
Fleiri frægar konur hafa sést með skartgripi frá merkinu á opinberum viðburðum. Mannréttindalögfræðingurinn Amal Clooney var með eyrnalokka frá skartgripamerkinu á frumsýningu í fyrra og leikkonan Maria Bakalova var með skartgripi á Óskarsverðlaunahátíðinni árið 2021.