Á ári hverju mæta skærustu stjörnur heims á Met Gala-hátíðina í New York-borg og ganga rauða dregilinn í klæðnaði frá fremstu tískuhúsum heims. Almennt er litið á viðburðinn sem virtasta tískuviðburð heims, en ár hvert er ákveðið þema valið sem setur tóninn fyrir klæðnað kvöldsins.
Nú hefur tískutímaritið Vogue tilkynnt þemað fyrir árið 2023.
Í ár verður hönnuðurinn Karl Lagerfeld heiðraður með þemanu Karl Lagerfeld: A Line of Beauty. Lagerfeld lést úr krabbameini árið 2019. Hann starfaði sem hönnuður í yfir 65 ár og á sannarlega glæstan feril að baki. Ásamt því að starfa sem listrænn stjórnandi tískurisans Chanel hannaði Lagerfeld undir sínu eigin merki og vann með mörgum af stærstu tískuhúsum heims.
Aðeins útvöldum stjörnum og frumkvöðlum frá hinum ýmsu sviðum, þar á meðal tísku, kvikmyndum, sjónvarpi, leikhúsi, tónlist, viðskiptum, íþróttum og stjórnmálum, er boðið á viðburðinn á vegum tískutímaritsins Vogue.
Anna Wintour, aðalritstjóri Vogue, hefur verið formaður eða meðstjórnandi Met Gala frá árinu 1995. Hún hefur valið Dua Lipa, Penélope Cruz, Roger Federer og Michaela Coel til að vera meðstjórnendur kvöldsnis í ár, en viðburðurinn mun fara fram á Metropolitan-safninu 1. maí næstkomandi.
Gert er ráð fyrir að gestir sjái til þess að klæðnaðurinn passi við þema kvöldsins, en í ár mun þemað fagna verkum Lagerfelds fyrir Chanel, Fendi, Chloé, Balmain og vörumerki hans.
Það verður spennandi að sjá hvernig stjörnurnar munu útfæra þemað, og hvort þær muni klæðast hönnun Lagerfelds eða sæki hreinlega innblástur til Lagerfelds sjálfs sem var frægur fyrir svart-hvítan klæðnað, fingralausa hanska, svört sólgleraugu og hvítt hár.
Met Gala-hátíðin er fjáröflunarhátíð sem var fyrst haldin árið 1948, en þá var viðburðurinn heldur frábrugðin því sem við þekkjum í dag. Hátíðin var þá kvöldverður og var meðal þeirra fjölmörgu hlunninda sem haldin voru fyrir góðgerðarstofnanir í New York-borg.
Til að byrja með voru gestir Met Gala-hátíðarinnar nánast eingöngu úr yfirstétt New York-borgar eða hátt settir aðilar úr tískuiðnaðinum. Það var svo ekki fyrr en árið 1972 sem frægar stjörnur fóru að mæta á viðburðinn, eins og Elizabeth Taylor, Diana Ross, Elton John, Madonna og Cher. Á þeim árum var viðburðurinn jafnframt haldinn á Metropolitian-safninu í fyrsta sinn þar sem þemu voru fyrst kynnt til leiks.