„Við erum kannski duglega að taka mataræði eða hreyfingu í gegn svona í upphafi árs - en húðin er einnig mikilvæg fyrir heilbrigði. Hún er aðaltengingin okkar við umhverfið og síðan hefur verið sýnt að útlit húðarinnar tengist beint líðan okkar. Þá eldist húðin gjarnan hraðar en manneskjan sem hún hylur. Ástæðan fyrir því er að húðin er í beinum tengslum við umhverfið þaðan sem sólargeislar og sindurefni koma - ólíkt lungum og öðrum líffærum. Því er ekkert óvanalegt að spegilmyndin sýni eldri einstakling en sá sem í spegilinn horfir,“ segir Lára G. Sigurðardóttir læknir í nýjum pistli á Smartlandi:
Sumar konur er smeykar við meðferðir og hræddar um að vera dæmdar með útlitsröskun, því fólk með slíka röskun er oft upptekið af lýtaaðgerðum og húðmeðferðum. Fæstar konur sem gangast undir húðmeðferðir eru þó með útlitsröskun eða þráhyggju fyrir útliti. Heldur er algengara að konur af öllum stærðum og gerðum upplifi að húðin hafa látið á sjá í tengslum við breytingaskeiðið, erfiða lífsreynslu eða almennt líferni, svo dæmi séu tekin.
Þar sem hver og einn hefur sögu sem markar húðina er erfitt að alhæfa almennt um bestu meðferðina. Aftur á móti eru nokkrar meðferðir sem ég tel góðar til að viðhalda heilbrigðri húð og gefa húðinni fallega áferð. Ef þú hefur aldrei farið í húðmeðferð er þó ráðlagt að fara varlega af stað, leyfa húðinni að aðlagast og byggja sig hægt og rólega upp.
Ávaxtasýrur
Ýmsar tegundir af ávaxtasýrum henta yfirleitt til að fríska upp á þreytta húð. Þegar hægist á endurnýjun húðarinnar með hækkandi aldri þykknar gjarnan ysta lagið í húðinni sem samanstendur af dauðum húðfrumum. Það vill gefa húðinni líflausa og grófa áferð. Ávaxtasýrur losa um böndin á milli dauðu húðfrumanna og örva endurnýjun húðarinnar. Með því fær húðin meiri ljóma og krem eiga jafnframt greiðari leið niður í húðina til að gera gagn, þ.e.a.s. að bæta starfsemi húðarinnar. Ýmsar sýrur eru í boði en flestir þola að byrja á 40% glýkólsýru sem er AHA-sýra og klassísk meðferð en frægt er að egypska drottningin Kleópatra notaðist við önsusýru sem tilheyrir sama flokki. Sumir með rósroða þola illa þessa meðferð þótt við höfum séð góðan árangur hjá fólki með vægan rósraoða.
Síðan eru TCA-sýrur sem við köllum Stjörnumeðferðina. Þessar sýrur hafa breiðari verkun en glýkólsýran en mólikúlin í þessum sýrum fara dýpra í húðina. Til skemmri tíma fær húðin á sig meiri ljóma en til lengri tíma getur þessi sýra dregið úr litabreytingum og örum ásamt því að þétta húðina með því að örva uppbyggingu kollagens og stuðla að viðgerð ysta húðlagsins. Þrátt fyrir öfluga verkun þolast þær vel, þeim fylgir venjulega vægur roði og oftast nær verður lítil sem engin flögnun. Þessi sýra henta vel fyrir slappa húð, fínar línur, þurra húð, litabreytingar, ör og húðslit. Ef þú vilt prófa þessa meðferð skal varast að nota retinóíða (t.d. retínól) tveim vikum fyrir meðferð.
Önnur sýrumeðferð sem er í boði kallast Perfect Derma sem meðhöndlar ýmiss húðvandamál, svo sem litabreytingar, bólur, ör, þurrk og línur. Þessar sýrur innihalda blöndu af sex öflugum sýrum og andoxunarefninu glútaþíón sem er jafnan tengt við æskuljóma. Þær koma frá Beverly Hills í Kaliforníu og eru þekktar fyrir að húðin flagnar af eins og snákur sem skiptir um ham. Ef þú ert með ofnæmi fyrir aspiríni/asetýlsalicsýru þá hentar þessi meðferð ekki því hún inniheldur salisýlsýru.
Fylliefni og bótulíntoxín
Margir eru hræddir við fylliefni þar sem samfélagsmiðlar sýna gjarnan myndir af fólki sem hefur farið langt yfir strikið í þessari meðferð. Þessi meðferð er aftur á móti frábær til að fríska upp á þreytta húð sem er komin með djúpar línur og mikið skuggaspil. Bestu fylliefnin innihalda nær eingöngu hýalúrónsýru sem er náttúrulegt rakaefni húðarinnar og binst vatni þúsundfalt. Notaðar eru sprautur til að koma fylliefninu í eða undir húðina og með því fær húðin því aukinn raka sem bætir starfsemi húðarinnar, því ensím húðarinnar starfa betur í góðu rakaumhverfi. Fylliefni geta valdið alvarlegum fylgikvillum ef þeim er sprautað í æð og því myndi ég ekki fara í þessa meðferð nema hjá heilbrigðismenntuðum fagaðila sem hefur mótefni á staðnum.
Bótúlíntoxín er einnig vinsæl meðferð og árangursrík til að draga úr línum og skuggaspili m.a. á enni og kringum augu. Andstætt því sem margir halda þá er meðferðin nokkuð örugg í réttum höndum, en þá er efninu sprautað í vöðva á því svæði sem meðhöndlað er. Við það lamast vöðvinn og sléttist úr línunum. Sé notað mikið af toxínum getur það gefið einkennandi dúkkuútlit, en algengara er nú að nota minna af efninu og lama vöðvann að hluta til svo einhver vöðvavirkni og hreyfigeta haldi sér.
Laserlyfting eða örnálameðferð
Báðar meðferðirnar örva bandvefsfrumur leðurhúðarinnar til að framleiða kollagen og elastín, en kollagen gefur húðinni styrk og elastín teygjanleika. Þegar kollagen tapast þá byrjar húðin að mynda hrukkur og þegar elastín tapast verður hún eins og númeri of stór.
Í örnálameðferð eru notaðar hárfínar nálar sem ná niður í leðurhúðina. Segja má að verið sé að brjóta húðina niður til að setja af stað kröftugt viðgerðarferli þar sem bandvefsfrumurnar fara á fullt að framleiða prótein húðarinnar. Þessa meðferð myndi ég alls ekki vilja fara í ódeyfð, en meðferðaraðili getur mælt með deyfikremi. Síðan er það laserlyfting þar sem notaður er “fractional” laser. Það eru til nokkrar gerðir, annarsvegar örvar laserinn bandvefsfrumurnar beint til að framleiða meiri prótein sem styrkja og þétta húðina og hinsvegar gerir laserinn örfín göt sem setur af stað kröftuga uppbyggingu húðarinnar, en sú meðferð er gjarnan talin gullstaðall húðmeðferða sem snúa við öldrunareinkennum.
Vissulega eru fleiri meðferðir sem fríska upp á 45 ára gamla húð en þetta eru klassískar meðferðir sem komin er góð reynsla á. Ef þú ert ekki viss hvað myndi henta þér, þá er á mörgum stöðum hægt að panta tíma í ráðgjöf og fá faglegt mat á hvaða meðferðir gætu hentað þér.