Svavar Örn Svavarsson, hárgreiðslumeistari á Senter, segir að hártískan í dag sé undir miklum áhrifum frá áttunda áratugnum. Hann segir að fólk þurfi að nota minna sjampó og meiri hárnæringu og venja sig á að skola efnin nægilega vel úr hárinu.
„Það má eiginlega segja að það sé loðnuvertíð í gangi. Ég vil hafa fólk loðnara um hárið,“ segir Svavar Örn og vill meina að það sé mikil áttunda áratugsbylgja í hártískunni með tilheyrandi krullum og toppum.
„Það er kominn Dyson-blásari á öll heimili og litatónarnir eru hlýrri. Ég kalla þetta Kaliforníu-blond. Ég vil hafa hreyfingu í hárinu og hafa það frjálsara,“ segir hann og segir frá því að hártískan sé allt öðruvísi í dag en hún var hér áður fyrr.
„Í gamla daga komu tvær hárlínur á ári og það voru allir með sömu klippingu. Það var alveg sama hvort fólk hafði hár í það eða ekki. Í dag er bara allt í gangi og á venjulegum degi klippi ég sömu klippinguna sjaldnast tvisvar,“ segir hann.
Þótt hann vilji hafa fólk loðið um hárið þá segist hann oft klippa hárið á fólki stutt. Þegar ég spyr hann um þá tískubylgju að vera með rakað hár í hliðununum og mikinn topp segist hann ekki vera sérlega hrifinn af því.
„Konur sem eru með rakað í hliðunum eru ekki kúnnar hjá mér,“ segir hann og hlær og bætir við:
„Ég er miklu meira fyrir mýkri línur þótt ég elski pönkið inni á milli.“
Svavar Örn segir að fólk þurfi ekki að vera alltaf í klippingu.
„Góðar klippingar eru þannig að þær eru fínar þegar fólk er nýklippt en líka þegar klippingin vex úr. Þá er kannski komin allt önnur klipping en hún er samt flott. Hár sem klippingin hefur vaxið úr er ekkert verra en nýklippt hár. Ég fíla þetta afslappaða útlit sem er svo vinsælt núna. Mér finnst gaman að leika mér með hár sem er með mikilli hreyfingu í. Í dag er líka algengara að fólk láti klippa sig á margra mánaða fresti en það kemur kannski oftar til að láta setja í rótina. Það er búið að taka mig sjúklega mörg ár að læra að gera minna þegar ég er að klippa fólk. Oft ætlar maður að glenna sig svo mikið og ætlar að gera svo flott. Minna er meira er alltaf málið þegar hár er annars vegar. Talandi um vel klippt hár. Mér finnst hárið á Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar. Ég vildi óska þess að ég sæi um hárið á henni. Svo er ég alltaf mjög hrifinn af Svövu minni. Hún er alltaf svo vel til höfð,“ segir Svavar Örn og er þá að tala um nöfnu sína Johansen, kaupmann í Reykjavík, en hann hefur séð um hárið á henni í mörg ár.
Talið berst að sjampói og hárnæringu. Svavar Örn segir að fólk þurfi ekki að þvo hárið á sér svona mikið.
„Það er auðvitað til fullt af fólki sem þarf að þvo á sér hárið daglega. Konur á breytingaskeiðinu, sem svitna mikið á næturnar, þurfa oft að þvo hárið á hverjum degi. Flestir þurfa það hins vegar ekki. Stundum er nóg að setja bara smá sjampó í hnakkann og bak við eyrun. Það er alveg nóg að gera það þrisvar í viku. Oft er alveg nóg að nota bara vatn og næringu. Það þarf ekki alltaf að nota allt þetta sjampó. Flestir nota tvo sjampóbrúsa á móti einni næringu. Ég myndi vilja sjá þetta öfugt. Að fólk notaði einn sjampóbrúsa á móti tveimur af næringu. Svo þarf fólk að setja í sig djúpnæringu tvisvar í viku. Svo er eitt sem ég þarf að minnast á og það er að fólk þarf að skola sjampóið og hárnæringuna betur úr hárinu. Þetta snýst um að vera tveimur til þremur mínútum lengur í sturtunni. Hárið verður miklu fallegra ef sjampóið og hárnæringin eru skoluð almennilega úr hárinu,“ segir Svavar Örn.