Leikkonan Courteney Cox segist hafa notað „of mikið“ af fyllingarefnum í andlitið á sér og að hún hafi á endanum litið „mjög undarlega“ út.
Í nýjasta þætti hlaðvarpsins Gloss Angeles talar Cox opinskátt um ofnotkun sína á fyllingarefnum í andlitið á sér og viðurkennir að það sé hennar stærsta eftirsjá þegar kemur að útlitinu.
„Þetta eru dómínóáhrif. Þú áttar þig ekki á því að þú lítur skringilega út, svo þú heldur bara áfram að gera meira vegna þess að þér finnst þú líta eðlilega út,“ útskýrði Cox í þættinum.
Hún viðurkennir að hafa á tímabili notað „of mikið af fyllingarefnum“ í andlitið á sér og hafi á endanum áttað sig á því að hún „þyrfti að láta leysa þau upp“.
„Guði sér lof að þau séu uppleysanleg. Ég klúðraði miklu með fyllingarefnum og núna, sem betur fer, get ég snúið því við að mestu,“ bætti hún við.
Í upphafi ákvað Cox að fá sér fyllingarefni í von um að sporna við öldrun í andliti, en í dag segir Cox hafa allt aðra sýn á öldrun. „Það að ég hafi haldið að ég væri að eldast þegar ég var enn mjög ung, það var bara bömmer og tímasóun,“ útskýrði Cox.