Margrét Jónasdóttir sagnfræðingur og aðstoðardagskrárstjóri RÚV er einstaklega góð í höndunum og getur töfrað fram ótrúlegustu flíkur með prónum og garni. Hún lærði að prjóna þegar hún var átta ára gömul og hefur síðan þá prjónað eins og vindurinn. Hennar nýjasta afurð er heilgalli sem hún prjónaði á Gísla Örn Garðarsson leikara og leikstjóra.
Þegar Margrét er spurð að því hvernig þessi heilgalli hafi komið til segir hún að þetta sé ekki fyrsta flíkin sem hún prjóni á Gísla Örn. Hann á nú þegar prjónabuxur og prjónahlýrabol sem hún prjónaði á hann fyrir nokkrum árum. Margrét framleiddi þættina Nautnir norðursins þar sem Gísli Örn ferðaðist um Ísland, Færeyjar og Grænland og kynnti sér matarmenningu á þessum stöðum.
„Þegar ég var að vinna með Gísla Erni í sjónvarpsþáttunum Nautnum norðursins 2014 þá var honum alltaf svo kalt. Ég var alltaf með aukaföt með mér sem ég lánaði honum. Meðan við vorum að keyra á milli staða við gerð þáttanna sat ég alltaf aftast og prjónaði,“ segir Margrét sem endaði á því að prjóna trefla á alla sem komu að þáttunum. Það kemur svo sem ekki á óvart því Margrét á mjög erfitt með að sitja auðum höndum.
„Ég prjónaði þykkar ullarbuxur á Gísla Örn fyrir nokkurm árum. Þær voru voða smart. Svo vildi hann fá hlýrabol við buxurnar og auðvitað fékk hann líka hlýrabol. Svo vildi hann fá prjónaðan jakkafatajakka en ég hef ekki ennþá prjónað hann. Það verður kannski næsta verkefni. Fyrir um ári síðan spurði hann mig að því hvort ég gæti prjónað á sig heilgalla því honum er alltaf svo kalt. Ég sagði auðvitað já því ég get ekki sagt nei við hann,“ segir hún og hlær.
Margrét leitaði og leitaði að uppskrift að heilgalla en fann aldrei neitt sem henni leist á. Það endaði með því að hún sendi mynd á Gísla Örn af smábarnagalla og spurði hvort það væri eitthvað svona sem hann væri að leita að. Ekki stóð á svarinu.
„Ég sendi á hann mynd með norsku munstri að ofan og víðum skálmum. Hann sagðist vilja svona - bara í öðrum lit,“ segir Margrét og skellir upp úr.
„Mér fannst þetta fyndið en var dágóða stund að hugsa hvernig ég gæti útfært þetta. Svo þurfti ég að ákveða hvaða garn ætti að nota svo hnén á gallanum færu ekki að poka. Svo fann ég þetta fína garn og ákvað að byrja bara og finna út úr þessu á leiðinni. 15. janúar sendi ég honum skilaboð að ég væri búin að kaupa garn úr lamaull í Litlu prjónabúðinni. Hann spurði strax hvort hann ætti að koma að máta. Ég sagði að það væri ekki tímabært því ég var rétt búin að fitja upp kragann.“
Á sínum tíma þegar Margrét prjónaði buxurnar og hlýrabolinn á Gísla Örn hafði hún fengið send mál af honum sem breskur búningahönnuður tók þegar hann var að leika í seríu í Bretlandi. Eftir smá fornleifauppgröft í tölvunni fann Margrét málin og gat hafist handa við prjónaskapinn.
„Ég miðaði við þessi mál en þurfti að síkka ermar töluvert og líka buxurnar. Hann mátaði reglulega á meðan á prjónaskapnum stóð,“ segir Margrét.
Þegar Margrét er spurð að því hvernig hún hafi tíma fyrir allan prjónaskapinn segir hún að það veiti henni mikla hugarró að prjóna.
„Ég er mjög fljót að prjóna og finnst gott að fá hugarró eftir langan vinnudag. Ég hvíli heilann meðan ég prjóna og horfi á góða seríu í spilaranum á RÚV. Þetta er eins og fíkn. Þegar ég er að gera eitthvað spennandi get ég ekki hætt,“ segir hún og segist oft taka hálftíma í viðbót og svo annan hálftíma ef vel gengur í prjónaskapnum.
Mesta áskorunin við heilgallann var að setja rennilás en það hafði hún aldrei gert áður.
„Ég var hrædd um að þetta yrði ekki fallegt hjá mér svo ég fór með 35 ára gömlu saumavélina mína í yfirhalningu. Ég fékk hana í stúdentsgjöf á sínum tíma og vildi alls ekki að hún myndi flækja þegar ég reyndi að setja rennilásinn í,“ segir Margrét og hlær. Aðspurð ð um næsta verkefni segist hún strax vera byrjuð á næsta stykki enda fellur henni aldrei verk úr hendi. Svo er dagskráin á RÚV svo spennandi um páskana og ef Margrét er söm við sig mun hún sitja föst fyrir framan sjónvarpið með prjónana.