Patrik Atlason kom nýverið inn í íslenskan tónlistarheim eins og stormsveipur. Patrik ætlar sér alla leið í poppheiminum og klæðir sig eins og ofurstjarna. Hann er óhræddur við að versla kvenmannsföt og segist fá lánuð föt frá kærustunni.
Hinn 28 ára gamli Patrik er Hafnfirðingur og snérist lífið mikið um fótbolta þangað til að hann setti takkaskóna á hilluna vegna meiðsla. „Mig hafði alltaf langað til að búa til tónlist og ég ákvað að kýla á það af því annars hefði ég aldrei gert það,“ segir Patrik um tónlistardrauminn.
„Ég fór ekki að blómstra í lífinu fyrr en ég hætti að drekka fyrir um ári síðan. Þá tók ég mér tak og þá fóru hlutirnir að ganga. Ég fór að fara út fyrir kassann með því að búa til tónlist en ég gerði það líka með klæðaburði. Mér fannst gaman að sjokkera fólk, ég varð háður því og það einhvern veginn stigmagnaðist. Ég hef alltaf gefið mig út fyrir að vera aðeins öðruvísi en aðrir. Ég sá alltaf fyrir mér að vera uppi á sviði, ég þurfti að vera í flottu formi og fór að hugsa miklu betur um mig. Fötin fóru að líka að klæða mig betur þannig maður getur tekið meiri áhættu.“
Patrik er hreinskilinn og segist vera athyglissjúkur. „Frá því að ég man eftir mér hef ég reynt að troða mér upp á svið. Þegar ég var yngri var ég í söngskóla og dansskóla. Kannski fékk maður einhverja athygli úr því að vera í fótbolta, svo datt það aðeins út og þá kom tónlistin í staðinn.“
Patrik hélt útgáfupartí á skemmtistaðnum Auto í byrjun mars sem gekk gríðarlega vel. „Það var stærsta kvöld Auto frá upphafi, aldrei verið svona margir og aldrei svona mikið áfengi selt. Ég fékk mjög góðar viðtökur þar. Þetta var það skemmtilegasta sem ég hef gert. Mér líður best uppi á sviði. Maður er í einhverri alsælu uppi á sviði og er bara í núinu.“
Þegar kom að tónlistinni kom ekki annað til greina en að flytja eigin tónlist. Patrik ákvað að fara í samstarf með þeim Andra Karel og Ingimar Tryggvasyni. Patrik segir að félagar hans sjái um að semja tónlistina en hann sjái um texta og melódíur. „Annars er þetta allt mjög mikið samstarf. Ég reyni að semja um mig, um minn karakter, um ástina, djammið eða að vera prettyboitjokko,“ segir Patrik en samnefnt lag hans hefur einmitt slegið í gegn.
Hvað er að vera Prettyboitjokko?
„Það sem felst í því að vera Prettyboitjokko er að þú þarft að lykta vel, þú þarft að vera með flottan fatastíl. Það þarf að vera einhver hiti í gangi, stelpurnar þurfa að vera að tala um þig og pikka í þig, þú þarft að vera með ákveðinn sjarma.“
Ert þú með þennan sjarma?
„Ég er svokallaður „Certified prettyboitjokko“.“
Áttu kærustu?
„Ég á kærustu. Mér líður ekkert rosalega vel að vera einn, þá er ég í algjöru rugli,“ segir Patrik. Aðspurður um athyglina núna segist hann vissulega fá mikla athygli frá stelpunum en hann tekur þó fram að hann hafi alltaf verið vinsæll hjá kvenkyninu.
Uppi á sviði er Patrik mjög léttklæddur þó hann sé ekki alveg nakinn. Hann pælir þó mikið í fötum og er tíska hans helsta áhugamál. Patrík segist sækja innblástur víða að, kvennadeildin í H&M getur veitt honum innblástur sem og frægir einstaklingar.
„Mér finnst oft kvennadeildin miklu meira sjarmerandi af því þar er meira úrval. Þar eru öðruvísi föt en í karladeildinni. Karlmenn, sérstaklega á Íslandi, kaupa bara það sem kærastan þeirra eða mamma þeirra segja þeim að kaupa. Þeir eru í sömu fötunum og þeir áttu þegar þeir fermdust. Kannski er karlatískan á Íslandi í takt við það af því þeir kaupa oft bara það sama. Þeir eru ekkert að fara út fyrir kassann. Ég vil fá meira frá karlmönnunum. Ég vil að þeir hætti að ganga í þröngu gallabuxunum sem þeir eru búnir að eiga í tíu ár. Ég vil að þeir fái sér ný föt. Oft segja menn að þeir geta ekki gengið í einhverjum fötum en þú getur gengið í öllu sem þú vilt ganga í. Ef þig langar að fara í öðruvísi föt en hingað til þá bara gerir þú það. Ég túlka þessi skítaskot frá öðrum karlmönnum sem óöryggi. Ég fer bara í fataskápinn hjá kærustunni minni. Ég geri það sem mig langar til. Þetta gengur ekkert alltaf upp. Ef þú tekur áhættu, þá klikkar það stundum.“
Patrik segist meðal annars eiga pils í fataskápnum. „Ég á pils. Það hefur ekki fengið góðar undirtektir en það er ekkert endilega að marka það. Ég vil sjokkera,“ segir hann. Hann bendir reyndar á að það sé ekki nóg að klæða sig á sérstakan hátt, fötin og samsetningarnar þurfi líka að ganga upp.
Patrik klæðir sig ekki bara á einstakan hátt þegar hann er að koma fram eða þegar hann er á leiðinni í myndatökur, fatastíllinn er hluti af persónuleika hans. „Ég klæði mig eftir líðan. Ef ég er í kósígír þá reyni ég að vera í kósífötum. Ég reyni að klæða mig þannig að ef einhver næði mynd af mér þá væri ég ekki eins og fífl. Það er erfiðast í vinnunni. Ég vinn hjá fjölskyldufyrirtækinu Góu,“ segir Patrik en hann hefur unnið þar síðan hann var barn enda barnabarn Helga í Góu. „Það er erfitt að vera í vinnunni í fersku „outfitti“.“
Hverju myndir þú aldrei klæðast?
„Ég er mjög mikið á móti þröngum gallabuxum akkúrat núna. Ég reyndi að fara í þröngar gallabuxur í sumar og reyndi að gera þær svalar en þær eru mjög kaldar núna. Það er ekkert sem ég myndi aldrei fara í en einmitt núna færðu mig ekki í þröngar gallabuxur.“
Er einhver flík í uppáhaldi?
„Ég er rosalega háður því að kaupa mér eitthvað nýtt. Hvort sem það er gamalt eða eitthvað nýtt. Sú flík sem er í uppáhaldi er yfirleitt sú flík sem er nýjasta eða ferskasta flíkin mín. Flestir mínir peningar fara í föt. Það er ekki eðlilegt hvað ég eyði miklu í föt.“
Áttu þér uppáhaldsmerki eða tískufyrirmynd?
„Bottega Veneta, það er svo stílhreint og sérstakt. Svo hef ég sótt mikinn innblástur frá Harry Styles. Hann á stóran þátt í að maður fór að ganga í kvennafötum, það var töff á honum.“
Hvað er næst á dagskrá?
„Ég stefni á það að verða næsta poppstjarna Íslands. Það eru fleiri lög á leiðinni. Spennið beltin!“