Fatahönnuðurinn Isabel Marant segist elska að hanna föt fyrir karlmenn. Á yngri árum gramsaði hún í fataskáp föður síns í leit að innblæstri og í dag er hún í auknum mæli að beina athygli sinni að karlatísku.
„Ég hef ekki áhuga á að hanna skrifstofuklæðnað fyrir karla heldur þægileg og nútímalegan klæðnað,“ segir Marant í viðtali við The Sunday Times.
„Þá hjálpar það mikið að karlar eru orðnir óhræddari við að prófa sig áfram í fatavali. Samkynhneigðir karlar hafa án efa lyft öðrum körlum upp hvað klæðnað varðar. Hér áður fyrr þótti það óhugsandi fyrir karlmann að klæðast bleiku. Við erum komin á annan stað núna.“
Marant býr Belleville í París ásamt eiginmanni sínum Jerome Dreyfuss og syni þeirra Tal. Stundum stelst hún í fötin af eiginmanni sínum en oftast er hún samt ekki hrifin af klæðnaði franskra karla.
„Ef ég á að vera hreinskilin þá finnst mér franskir karlar frekar leiðinlegir, stíllinn þeirra er of íhaldssamur. Hann er ekki ævintýragjarn. Mér finnst karlar í London og Berlín miklu flottari til fara.“
Marant hefur mjög afslappað viðhorf til vinnu og myndi helst kjósa fjögurra daga vinnuviku. Á mánudögum forðast hún alla tölvupósta og einbeitir sér að listsköpun og leirar mikið. „Ég finn að ég næ að einbeita mér að einhverju til fullnustu. Leirinn er ákveðin hugleiðsla.“