Kanadíska leikkonan Rachel McAdams er lítt hrifin af „sannleikanum“ sem ljósmyndir af Hollywood–stjörnum og áhrifavöldum sem birtast bæði í tímaritum og á samfélagsmiðlum eiga til að sýna.
Í nýlegri myndatöku var leikkonan þar af leiðandi ekkert að fela sig og sýndi hárin í handakrikanum með stolti og bað einnig um að ljósmyndirnar yrðu lítið sem ekkert unnar í eftirvinnslu.
„Þetta er líkaminn minn og mér finnst svo mikilvægt að hann endurspegli raunveruleikann,“ sagði Mean Girls–stjarnan.
Í myndatökunni sem birtist í Bustle Magazine klæddist leikkonan nokkrum fallegum fatasettum og var andlitsförðun haldið í algjöru lágmarki. Leikkonan passaði einnig upp á það að myndunum yrði breytt eins lítið og mögulegt væri.