Flest okkar sem erum að leggja leið okkar, tvíefld, æst og ofurspennt á Laugardalsvöllinn á föstudagskvöldið til þess að sjá og syngja með Backstreet Boys, erum að uppfylla langþráðan draum úr barnæsku.
Þar sem spenningurinn magnast með hverri mínútunni, getur verið erfitt að halda utan um það allra mikilvægasta sem þarf að taka með á þennan viðburð viðburðanna.
Smartland hefur þar af leiðandi gert samantekt á öllu því helsta sem við teljum vera ómissandi fyrir þá sem verða í „næntís nostalgíustuði“ á föstudagskvöldið.
Í fyrirpartýinu er tilvalið að svolgra í sig nokkrum ísköldum sopum af Mickey Finns, helst grænum, og koma sér þannig í gírinn. Það þarf einnig að draga fram gamla góða þriggja diska geislaspilarann sem flestir fæddir 1985 -1988 fengu í fermingargjöf og finna einn mikilvægasta grip allra „næntís“ krakka, geisladiskamöppuna. Þar skal fletta beint upp í b-inu og finna Backstreet Boys, Millenium, Backstreet’s Back og Black and Blue og byrja að finna taktinn.
Nú þegar líkaminn er byrjaður að hitna þá þarf að finna réttu fötin. Kannski er best að kíkja í geymsluna og eða efri–skápana til þess að sjá hvort það sé ennþá líf í hermannabuxunum, Juicy Couture-göllunum, háskólapeysunum, vasaklútatoppunum, magabolunum og öllum hlýrabolunum sem við klæddumst. Það getur líka verið sniðugt að horfa á nokkur af tónlistarmyndböndum Backstreet Boys og athuga með fatainnblástur þar. Það er ekki hægt að fara úrskeiðis í öllu hvítu eða víðum Tommy Hilfiger-gallasmekkbuxum og með fötuhatt eins og maður keypti í Accessories í „gamla daga.“
Þegar þú hefur valið fötin, þarf að huga að andlitsfarða, hári og aukahlutum. Það er gott að byrja á Dream Matte Mousse sem fullkomnar áferð húðarinnar og það er auðvitað best að velja tón, örlítið ljósari eða dekkri en þann sem þú ert vön að nota. Það gefur þér þennan „næntís glamúr“ sem þú ert að leitast eftir fyrir tónleikana. Við mælum eindregið með að nota glitrandi augnskugga og bera hann alveg upp að ofurþunnum augabrúnum. Og til þess að fullkomna útlitið þá eru frostaðar varir skreyttar andlitsgimsteinum alveg málið.
Það má að sjálfsögðu ekki gleyma hárinu. Ef þið viljið nýta tækifærið og votta Nick Carter virðingu þá er um að gera að greiða í píku. Hann er konungur píku-greiðslunnar og á skilið þakkir fyrir. Þið ykkar sem viljið taka hárið í aðra átt, þá er um að gera að taka fram vöfflujárnið, bara passa að það sé fyrir hár og „vaffla“ hárið. Finna svo fiðrildaspennurnar og klemma hliðarlokkana upp fyrir eldheitt útlit.
Nú er allt að smella en okkur vantar samt réttu skóna. Við viljum öll sjá vel, líða vel og dást af strákunum. Hvaða skór eru svoleiðis... Buffaló-skórnir. Það er ótrúlega auðvelt og þægilegt að ganga í þeim og þeir passa vel við hvaða „næntís“ klæðnað sem verður fyrir valinu.
Með glæra „búbblu–bakpokann“ á bakinu ertu loksins mætt í röðina. Það eru nokkrir hlutir sem eru einfaldlega ómissandi þar. Í fyrsta lagi verður filmumyndavélin að vera á sínum stað og ekki færri en fimm aukafilmur, þú ætlar að eiga þessa minningu að eilífu.
Nokia 5110–farsíminn er með svo hægt sé að spila Snake og drepa tímann í röðinni. Nokkrir vel kældir Smirnoff Ice og Woody’s bjórar verða að vera með svo það sé hægt að skála fyrir strákunum í röðinni: „As long as there'll be music we'll be coming back again.“ Og svo ein ísköld dós af Tab til að kæla sig niður.
Þú ert kominn inn í höllina og þú finnur lyktina af Kevin, Nick, Howie, Brian og AJ, þeir eru nálægt. Hvað þarftu meira? Það er ef til vill sniðugt að kíkja á salernið, mundu að horfa í kringum þig, heilsa hinum, dást að tískunni, dansa með VÖK og undirbúðu þig undir besta kvöld allra tíma. Og ekki gleyma að kanna hvort að Tamagotchi-tölvudýrið sé ekki örugglega vel nært og klárt í kvöldið.
Góða skemmtun!