Streita, sauna og heitir líkamsræktartímar auka rósroða

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húð-og kynsjúkdómalæknir á Húðlæknastöðinni.
Ragna Hlín Þorleifsdóttir húð-og kynsjúkdómalæknir á Húðlæknastöðinni. Ljósmynd/Helgi Ómarsson

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manneskju sem spyr um rósroða og hvað sé hægt að gera. 

Sæl Ragna. 

Hver er munurinn á rósroða og perioral dermatitis? Er munur á meðferðinni við þessum sjúkdómum?

Kveðja, 

HK

Sæl. 

Rósroði og perioral dermatitis eru skyldir sjúkdómar sem báðir eiga uppruna sinn í hár/fitukirtlaeiningunni í húðinni. Þeir eiga það sameiginlegt að vera báðir krónískir bólgusjúkdómar í húð og eru mun algengari hjá konum. Meðferð þessara sjúkdóma er einnig nokkuð svipuð og báðir geta komið upp eða versnað ef sterakrem eru borin á útbrotin. Hins vegar eru nokkur atriði sem skilja þá frá hvor öðrum.

Rósroði byrjar oft upp úr 30 ára aldri á meðan perioral dermatitis kemur yfirleitt mun fyrr eða um 20 ára aldur og getur komið fyrir hjá börnum. Rósroðaútbrot má oft sjá á nefi og í kinnum en perioral dermatitis byrjar gjarnan við nasavængina og dreifist svo í kringum munninn og jafnvel kringum augun. Fólk með rósroða er oftast að glíma við hitaköst í andlitinu (flushing köst) og háræðaslit sem þarfnast meðferðar með laser en yfirleitt eru engin slík einkenni að finna hjá fólki með perioral dermatitis. 

Rósroði erfist og til erum margir þættir sem geta komið honum af stað eða gert einkennin verri eins og til dæmis útfjólublá geislun sólar, streita, sauna og heitir líkamsræktartímar.  Perioral dermatitis er hins vegar minna rannsakaður sjúkdómur en þeir þættir sem helst hafa verið tengir við uppkomu hans er notkun stera í andlit (krem, púst eða nefsprey) og of mikið af vörum eða of virkar húðvörur.

Báðir sjúkdómarnir eru meðhöndlaðir með bólgueyðandi meðferðum eins Doxylin töflum og Rosazol og Finacea kremum. Hins vegar er einnig hægt að nota sérstakt rósroðakrem sem heitir Soolantra en það virkar ekki fyrir fólk með perioral dermatitis. Meðferð með æðalaser er svo mikilvæg fyrir rósroða en hefur mjög takmarkaða þýðingu fyrir perioral dermatitis.  Almennt þarf svo að passa vel upp á húðumhirðu þegar báðir þessir sjúkdómar eiga í hlut og til að mynda forðast allar virkar húðvörur (retinól og ávaxtasýrur), nota olíulaus rakakrem og mildan hreinsi.

Kær kveðja, 

Ragna Hlín Þorleifsdóttir Húð- og kynsjúkdómalæknir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Rögnu Hlín spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda