Lífsstílsgúrúinn Martha Stewart lætur aldurinn ekki stoppa sig enda þekkt fyrir að ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Stewart, sem er 81 árs gömul, er ein fjögurra stjarna er prýða forsíðu sundfataheftis Sports Illustrated fyrir árið 2023.
Stewart var mætt í morgunþátt NBC, Today Show, í gærmorgun til þess að frumsýna forsíðuna og ræða um það hvers vegna hún samþykkti að taka myndirnar og hvað hún hefði gert til þess að undirbúa sig fyrir módelmyndatöku á níræðisaldri.
„Ég skalf á beinunum allan tímann. Það er skrýtið að fljúga á eyju fyrir myndatöku og hafa þar níu sundfataskipti á einum degi og það fyrir framan hóp af ókunnugum,“ sagði Stewart og glotti eftir að hafa séð forsíðuna í fyrsta skipti ásamt stjórnendum þáttarins, Savannah Guthrie og Hoda Kotb. „Mér líkar þessi mynd...Hún er bara alveg hreint ágæt!“
Stewart var beðin um að sitja fyrir á forsíðu blaðsins í nóvember 2022, aðeins nokkrum vikum áður en myndatakan var áætluð. „Svona beiðni hef ég aldrei fengið fyrr,“ sagði hún. „Að vera á forsíðunni í sundfötum á mínum aldri var áskorun. Mér sýnist samt eins og ég hafi staðist áskorunina.“
Til þess að undirbúa sig fyrir myndatökuna lagði Stewart áherslu á gamaldags hollt mataræði og hreyfingu. „Ég svelti mig ekki. Ég borðaði hvorki brauð né pasta í nokkra mánuði,“ sagði hún. „Ég stundaði pilates, annan hvern dag og það var frábært; ég er enn á fullu að stunda pilates.“
Stewart sagði hún væri dugleg og óhrædd við að taka áskorunum. Og hvað varðar áskorunina um að sitja fyrir á forsíðu Sports Illustrated, þá sagði hún að þetta væri hluti af „langri já-hefð“ sem hún hefur verið dugleg að tileinka sér í gegnum ævina.
„Þegar þú ert stöðnuð og hætt að leyfa breytingar, þá ertu búin. Það er eitt af einkunnarorðum mínum. Breytingar eru af hinu góða, þróun er jákvæð, það er gott að prófa nýja hluti – að vera óttalaus er mjög gott. Ekki vera hræddur, ekki vera hræddur við neitt.
Ég vona að þessi forsíða gefi fólki, sérstaklega konum, tækifæri til þess að endurskoða líf sitt og finna myndina sína.“