Eyrún Birna Jónsdóttir, klæðskeri og brúðarkjólahönnuður, hannar brúðarkjóla undir eigin nafni. Hún segir það gera mikið fyrir konur að líða vel í fallegri flík á stóra daginn en innblásturinn kemur ekki síst frá æskunni í Svíþjóð.
„Ég vissi alltaf að ég vildi hanna fallega og klæðilega kjóla, og þar sem ég hef alltaf heillast af blúndum, síðkjólum og rómantík lá beinast við að ég sérhæfði mig í brúðarkjólum. Brúðarkjóll er líka svo einstök flík, kjóll sem þú klæðist á einum eftirminnilegasta degi í lífi þínu, svo tengingin við hann verður svo falleg. Þess vegna er svo gefandi að hjálpa konum að eignast sinn draumakjól sem þær munu dást að á myndum um ókomin ár,“ segir Eyrún Birna um brúðarkjólaáhugann.
Eyrún Birna sækir innblástur víða, meðal annars í kvikmyndir, blöð, fólk úti á götu, Pinterest og svo mætti lengi telja. „Ég held að upprunalegi innblásturinn komi frá fallegum minningum æsku minnar um Midsommar-hátíðir í Svíþjóð þar sem ég ólst upp. Þar mændi ég sem lítil stúlka á fallegu ungu konurnar í hvítu síðu blúndukjólunum dansa um á blómaengjum í sumarsólinni. Ég hugsa að þessar draumkenndu minningar hafi að öllum líkindum töluverð áhrif á hönnun mína.“
Eyrún Birna segir erfitt að alhæfa um brúðarkjólatísku á Íslandi. Hún segir þó að þær konur sem leiti til sín eigi það sameiginlegt að vilja klæðilega kjóla sem þeim líður vel í.
„Kjólarnir sem ég hanna eru afslappaðri en hefðbundnir brúðarkjólar, úr þægilegum efnum, með áherslu á falleg smáatriði og einstakar, öðruvísi blúndur. Íslenskar konur hafa sterkar skoðanir og vilja gjarnan brúðarkjól sem lýsir þeirra karakter í stað þess að velja hefðbundinn prinsessukjól. Ég hugsa að það sem einkennir þó íslenskar brúðir sé að þær vilja helst að kjóllinn sé með ermum, svo flest mín snið bjóða upp á það.“
Vita konur alltaf hvað þær vilja þegar þær koma í mátun?
„Það er mjög misjafnt, en besta ráðið er að mæta bara með opinn huga og máta sem flest, því margir kjólar koma á óvart og alls ekki hægt að vita hvað hentar hverjum og einum án þess að máta. Svo er gott að hlusta á sína eigin tilfinningu, því við vitum það best sjálfar í hvaða kjól okkur líður vel og hverjum ekki og þegar okkur líður vel leyfum við okkur að geisla.“
Hverju þarf góður brúðarkjóll að búa yfir?
„Hann þarf að draga fram bestu eiginleika hverrar brúðar og passa hennar persónuleika. Hann þarf að vera þægilegur en líka hafa ákveðinn „vá-faktor“ sem fær fólk til að taka andköf þegar brúðurin birtist.“
Hvernig kjól klæddist þú þegar þú gekkst í hjónaband?
„Ég sjálf klæddist brúðarkjól mömmu minnar þegar ég gifti mig. Ég ákvað það sem lítil stelpa og því kom aldrei annað til greina, enda mjög fallegur kjóll og skemmtilegt að klæðast kjól með sögu,“ segir Eyrún Birna og segist geyma kjólinn vel og hver veit nema dóttir hennar vilji nota hann á brúðkaupsdaginn sinn í framtíðinni.
„Brúðarkjólar eru auðvitað í eðli sínu einnota flík en það er svo frábært ef hægt er nota þá aftur, annaðhvort í upprunalegri mynd eða með breytingum. Ég reyni að hafa það í huga í minni hönnun að möguleiki sé á því að nota flíkurnar áfram að einhverju leyti, til dæmis getur verið æðislegt að nota brúðarpeysurnar og -toppana áfram við til dæmis gallabuxur eða annað pils,“ segir Eyrún Birna.