Það styttist í að landsmenn fá lúxusmerkjavörur beint í æð því Collage the Shop mun opna á Geirsgötu 4 á Hafnartorgi 8. júní. Þar verður boðið upp á hátískumerki á borð við Gucci, Saint Laurent, Valentino, Loewe, Burberry, Bottega Veneta og Mulberry svo einhver merki séu nefnd.
Verslunin er hluti af fjölskyldufyrirtækinu Group 88 sem hefur verið leiðandi einkasölusaðili á hátískuvörumerkjum í Skandinavíu síðan 1988. Versluninni er ætlað að auka markaðsstöðu fyrirtækisins sem leiðandi hágæða lúxusfyrirtæki í Skandinavíu. Group 88 er rekið af dönsku bræðrunum Thomas og Marius Møller og eru þeir þriðja kynslóð fjölskyldunnar sem stýrir fyrirtækinu.
Í versluninni verður að finna fjölbreyttan tískufatnað og fylgihluti fyrir konur. Í dag reka Møller-bræðurnir sex Collage the Shop verslanir á Norðurlöndunum og verður verslunin á Hafnartorgi sú sjöunda í röðinni.
„Við höfum lengi fylgst með þróun verslunar á Íslandi með það fyrir augum að opna Collage the Shop búð og núna með uppbyggingu Hafnartorgs í miðborg Reykjavíkur skapast einstakt tækifæri til að bjóða Íslendingum jafnt sem erlendum gestum aðgang að sumum af vinsælustu hátískuvörumerkjum heims,“ segir Thomas Møller, forstjóri Group 88, í tilkynningu.
Með opnun verslunarinnar í Reykjavík er fyrirtækið að styrkja stöðu sína enn frekar sem einkasöluaðili hátísku á Norðurlöndunum en það rekur nú fleiri en 30 verslanir í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, Gautaborg, Osló, ásamt öðrum borgum. Hönnun verslunarinnar var í höndum dönsku arkitektastofunnar REINHOLDT//RUD.