TikTok-stjarnan Alix Earle hefur verið að gera allt vitlaust á miðlinum undanfarna mánuði, en hún er þekkt fyrir að gera svokölluð „Get ready with me“ eða „Gerðu þig til með mér“ myndskeið þar sem hún fer í gegnum förðunarrútínu sína á meðan hún spjallar hreinskilnislega við fylgjendur sína.
Förðun Earle er oftast sólkysst og ljómandi. Hún hefur deilt sínum uppáhaldssnyrtivörum með fylgjendum sínum, en vörurnar sem Earle notar í TikTok-myndskeiðum sínum verða oft ófáanlegar vegna vinsælda.
Earle byrjar á því að undirbúa húðina með góðu rakakremi, en hennar uppáhaldskrem er Magic Cream frá Charlotte Tilbury. Því næst notar hún svokallaða „bronzing-dropa“ frá Drunk Elephant til að gefa húðinni sólkysstan ljóma. Að því loknu notar hún hinn geysivinsæla Shape Tape-hyljara frá Tarte í kringum nefið og augun.
Þegar kemur að farða þá eru þrír farðar í uppáhaldi hjá Earle. Það eru Luminous silk-farðinn frá Giorgio Armani og Sheer Glow-farðinn frá Nars sem eru báðir fljótandi með miðlungs þekju, en einnig Traceless-farðastiftið frá Tom Ford sem er þægilegt og fljótlegt í notkun.
Til að skyggja andlitið notar Earle aðallega tvær vörur, annars vegar Contour Wand frá Charlotte Tilbury og hins vegar Fit Me-hyljarann frá Maybelline í dökkum lit. Því næst notar hún laust púður undir augun til að tryggja að hyljarinn haldist á sínum stað, en hún notar Easy Bake-púðrið frá Huda Beauty.
Sólarpúður er ómissandi hluti af sólkysstri förðun, en Earle notar hið klassíska Hoola-sólarpúður frá Benefit. Því næst notar hún Soft Pinch-kremkinnalitinn frá Rare Beauty í litnum Hope og Happy. Til að setja punktinn yfir i-ið notar hún svo perlubleikt Tickle-ljómapúður frá Benefit á kinnbeinin og nefið.
Til að fylla inn í augabrúnirnar notar Earle vatnsheldan Brow Definer frá Chantecaille og notar svo 24-HR-augabrúnagelið frá Benefit til að halda þeim á sínum stað. Hún byrjar svo á augunum, en Earle er þekkt fyrir að nota hvítan augnblýant í vatnslínuna sína fyrir bjartari augu, en hún notar Jumbo augnblýantinn frá NYX í litnum Milk.
Tveir maskarar eru í mestu uppáhaldi hjá Earle, en hún notar vatnsheldan Better Than Sex-maskara frá Too Faced og Roller Lash-maskarann frá Benefit.
Á varirnar notar Earle svo hinn sívinsæla Lip Cheat-varablýant frá Charlotte Tilbury í litnum Pillow Talk. Undanfarið hefur hún svo verið með algjört æði fyrir Candy Glazed-glossinum frá Yves Saint Laurent, en hann gefur vörunum guðdómlegan ljóma.