Svanakjóllinn sem Björk klæddist á Óskarsverðlaunahátíðinni 2001 verður til sýnis á stórri sýningu sem sett er upp til heiðurs breskra fatahönnuða. Ber sýningin heitið Rebels: 30 Years of London Fashion og opnar hún í september næstkomandi í Design Museum í Lundúnum. Verður þetta í fyrsta skiptið sem kjóllinn umtalaði verður til sýnis í Bretlandi.
Björk vakti mikla athygli fyrir kjólinn, sem hannaður var af Marjan Pejoski, á sínum tíma og komst á fleiri en einn lista yfir verst klæddu stjörnurnar á Óskarsverðlaununum það árið. Núna 22 árum seinna er kjóllinn einn af þekktustu kjólum sem sést hafa á rauða dreglinum, fyrr og síðar.
Ásamt svanakjólnum verða meðal annars til sýnis eftirlíking af umdeildum uppblásnum jakkafötum hönnuð af Harri og Sam Smith mætti í á bresku tónlistarverðlaunin á þessu ári, jakki skreyttur breska þjóðfánanum sem hannaður var af Russel Sage og Kate Moss klæddist og blár tjullkjóll sem hannaður var af Molly Goddard og Rihanna klæddist 2017, ásamt flíkum eftir Alexander McQueen, Christopher Kane og Jonathan Anderson.
Forstöðumaður safnsins, Tim Marlow, segir að gestir muni verða agndofa yfir öllum þeim flíkum sem þeir sjá og munu þekkja samstundis á sýningunni. Vonast hann einnig til þess að gestir verði hrifnir af breidd, dýpt, fjölbreytileika og heimsklassahæfileikum sem birst hafa í tískusenu Lundúnarborgar síðustu þrjá áratugina.