Tískuhúsið Chanel hefur verið áberandi samstarfsaðili í gegnum kvikmyndasöguna. Nýjasta samstarf þeirra er við gerð kvikmyndarinnar um Barbie, þar sem tískuhúsið aðstoðaði við sköpun á búningum fyrir Barbie sjálfa, ásamt skíðagalla fyrir Ken.
Margot Robbie, aðalleikkona og einn af framleiðendum myndarinnar, segist vera hæstánægð með að hafa fengið að klæðast þeim flíkum og fylgihlutum sem valdir voru, enda elski Barbie hönnun Chanel og því megi sjá ýmislegt frá franska tískuhúsinu í myndinni.
Jacqueline Durran, búningahönnuður myndarinnar, fékk til sín úrval af flíkum í ýmsum bleiktóna litum úr safni Chanel sem hannaðar höfðu verið af Virginie Viard, hönnuði og listrænum stjórnanda hjá tískuhúsinu. Fyrir valinu urðu þrjár dragtir, skíðagalli og kjóll, sem ætlað var að endurspegla persónu Barbie á ferðalagi hennar í gegnum myndina.
Einnig var notað úrval af fylgihlutum frá tískuhúsinu, þar á meðal hjartalaga taska merkt tískuhúsinu. Margot Robbie lýsir hugarfari persónunnar Barbie á þá leið að hún gangi alltaf um með nóg af fylgihlutum, þar á meðal hatta, slaufur, eyrnalokka og annað skart. Hattar eru til dæmis aldrei til varnar sólinni heldur mikilvægur fylgihlutur, rétt eins og töskur eða skór.