„Hvaða djöfulsins pest er þetta?“

Getty Images/Unsplash

Lykt spilar stórt hlutverk í lífi flestra þótt lyktarskynið sé missterkt hjá fólki. Lykt skapar minningar og getur framkallað löngu gleymd augnablik. Hvað myndir þú gera ef þú rækist á gamla „djamm“-ilmvatnið þitt í fríhöfn? Myndir þú kaupa það aftur?

Fólk sem hefur áhuga á ilmvötnum og er lyktnæmt getur farið í algeran tilfinningarússíbana ef það þefar af ilmvötnum fortíðarinnar. Á dögunum var ég stödd á flugvelli erlendis og fór aftur í tímann allavega þrisvar á meðan ég gekk um með nefið á undan mér. Þar rakst ég til dæmis á fyrsta alvöruilmvatnið sem ég eignaðist, Eternity frá Calvin Klein. Ilmvatninu kynntist ég á heimili vinkonu minnar þegar ég var um það bil 12 ára. Vinkona mín átti ekki þetta ilmvatnsglas heldur móðir hennar. Í hvert skipti sem ég þurfti að nota salernið heima hjá þeim mæðgum þefaði ég af ilmvatninu og upplifði alsælu um stund. Ég þorði alls ekki að úða því á mig því ég vissi að það kæmist upp um mig. Mig dreymdi um að eignast slíkt ilmvatn þegar ég yrði stærri því helst af öllu vildi ég lykta eins og framakonan móðir vinkonu minnar sem var iðulega á þeytingi um heiminn.

Eternity frá Calvin Klein, CK One og Angel frá Thierry …
Eternity frá Calvin Klein, CK One og Angel frá Thierry Mugler. Ljósmynd/Samsett

Líklega hef ég ákveðið á baðherbergi í Árbænum árið 1989 að ég ætlaði að verða eins og hún þegar ég yrði stór. Vildi verða svona týpa sem væri alltaf á þvælingi, aldrei heima og alltaf að vinna. Nærumhverfið getur líklega staðfest að sá draumur hafi ræst þótt þótt hann sé kannski ekki sérlega vinsæll á heimilinu. Ég hef líklega keypt Eternity-ilmvatnið ári eða tveimur árum seinna þegar ég var farin að afla sjálf peninga með barnapössun og arfareytingu.

Eftir að Eternity-tímabilinu lauk hófst CK One-tímabilið en það þótti afar byltingarkennt að tískuhús gæti búið til ilm sem hentaði báðum kynjum eins og það var kynnt í þá daga. Tískuhús myndi líklega ekki komast upp með þetta í dag en það er önnur saga. Þegar ég lykta af þessum ilmi reikar hugurinn til Bandaríkjanna þar sem ég var barnfóstra um tíma. Ég get ekki sagt að þetta hafi verið draumastarfið en það var sport að eiga frí. Þá hjólaði ég í bæinn eða tók lestina, hlustaði á Bryan Adams í vasadiskóinu mínu og fór í allar fínustu búðirnar, klappaði efnum og spáði í snið. Auk þess úðaði ég á mig ilmvötnum í Galleria-mollinu. Þar fann ég mig!

CK One-tímabilið varð þó ekki langlíft því um það bil sem barnfóstran ógurlega mætti aftur til Íslands hafði nýtt ilmvatn yfirtekið allt. Þetta var Angel frá Thierry Mugler. Hjartað tók kipp við fyrstu þefun. Það varð ekki aftur snúið. Þetta var ilmur ilmanna í nokkur ár þangað til aðrir ilmir tóku við keflinu. Í fríhöfninni á dögunum ákvað ég ferðast aftur í tímann og úðaði hressilega á mig. Ég andaði að mér og hugsaði með mér hvort ég ætti ekki bara að fjárfesta aftur í Angel. Þá gæti ég ferðast aftur í tímann í tíma og ótíma en þó aðallega á Skuggabarinn og á Glaumbar. Þegar ég var við það að grípa glasið kom eiginmaður minn labbandi og sagði: „Hvaða djöfulsins pest er þetta!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda