Þessa lexíu kenndi Barbie lítilli stúlku úr Árbænum

Í Barbielandi er allt bleikt og þar eru allir hamingjusamir.
Í Barbielandi er allt bleikt og þar eru allir hamingjusamir. AFP

Kvikmyndin um hina ódauðlegu Barbie hristi upp í samfélaginu þegar hún var frumsýnd hérlendis. Hér verður farið yfir það hvernig Barbie auðgaði líf lítillar stúlku úr Árbænum og hvað hún fann mikla tómleikatilfinningu þegar hún neyddist til að kveðja Barbie-land og reyna að læra að reykja.

Kvikmyndin um hina ódauðlegu Barbie hristi upp í samfélaginu þegar hún var frumsýnd hérlendis. Dúkkan sem einhverjir elskuðu að hata og aðrir elskuðu af öllu hjarta var skyndilega orðin hápunktur umræðunnar í fjölmiðlum og á félagsmiðlum.

Það á þó ekki bara við um íslenskt samfélag því á sama tíma og kvikmyndin var frumsýnd hérlendis reið mikið Barbie-æði yfir Mexíkó. Verðmætasta svæðið í Walmart var til dæmis tekið undir Barbie-land og hægt að kaupa ýmsan bráðnauðsynlegan óþarfa eins og Barbieland-lóð, -hárbursta, -snyrtibuddur og -spegla svo eitthvað sé nefnt. Hjartað í Barbie-elskandi konu tók aukaslag. Hvern langar ekki í bleik lóð merkt Barbie-landi?

Barbie hefur notið mikilla vinsælda í gegnum tíðina.
Barbie hefur notið mikilla vinsælda í gegnum tíðina. AFP/Justin Sullivan

Það rifjaðist upp hvað Barbie hafði mikil áhrif á líf lítillar stúlku sem ólst upp í Árbænum á níunda áratugnum. Hún naut góðs af millilandasiglingum karlkyns fjölskyldumeðlima sem virtust alltaf vita hvaða Barbie-dót væri mest móðins. Lífið með Barbie snerist þó alls ekki um að fá stöðugt nýtt og nýtt Barbie-dót þótt Ameríkusiglingar gæfu stundum vel. Leikurinn snerist aðallega um að hafa híbýli Barbie sem smörtust og láta þau þróast frá degi til dags. Þessi litla í Árbænum vildi alls ekki frístandandi Barbie-hús frá Mattel. Hún vildi frekar hanna sitt eigið sem var á nokkrum hæðum í IVAR-hillum frá sænska móðurskipinu IKEA. Þessar hillur eru úr gegnheilum viði og eru ennþá framleiddar. Þær hentuðu vel fyrir Barbie því hægt var að stilla þær á alla kanta. Í sitt hvorum endanum voru gluggar með nýmóðins heimaföndruðum gluggatjöldum. Felligardínur voru vinsælar en þær voru búnar til úr eldhúsrúllu og garni og festar upp með kennaratyggjói. Svo komust rimlagardínur í tísku og þær voru föndraðar úr pappa og festar saman með bandi sem þoldi allt. Húsgögnin voru föndruð úr öllu sem hefði mögulega átt að enda í flokkunartunnunni. Eins og til dæmis heimatilbúið vatnsrúm sem var búið til úr kassa utan af niðursuðudósum og risastórri blöðru sem var fyllt af vatni og sett í botninn. Fór þetta út um allt? Nei alls ekki.

Þessi litla úr Árbænum hugsaði mjög vel um Barbie-dúkkurnar sínar og minnist þess ekki að hafa nokkurn tímann klippt þær eða tússað á þær. Barbie var manneskja með metnað og það var borin óttablandin virðing fyrir henni. Þessi litla var lítið að spá í að Barbie væri allt of mjó með risabrjóst en hún gerði sér fljótt grein fyrir því að Ken væri alger aukaleikari. Hann var bara einn á stangli og átti enga vini. Einu skiptin sem Ken fékk hlutverk í Barbie-húsinu var þegar baldinn yngri bróðir afklæddi helstu leikara í Barbie-landi og lét íbúana leika lausum hala.

Barbie-leikurinn gekk ekki út á hópkynlíf heldur að breyta húsinu, sauma fötin og reyna að búa til eitthvað sem ekki kostaði peninga. Á þessum tíma var lítið um fjárveitingar og ekki komið í tísku að hringja í forráðamenn og láta þá millifæra í gegnum AUR-appið. Allur tíminn fór í að sinna Barbie, fyrir utan það að sofa og mæta í skólann. Það skapaðist því töluverð innri togstreita þegar þessi litla neyddist til þess að pakka Barbie-húsinu niður. Hún var að byrja í 8. bekk og það var ekki hægt að vera bæði í Barbie og læra að reykja bak við Árbæjarkirkju á sama tíma.

Hér má sjá IVAR-hillur úr IKEA í íbúð í miðbæ …
Hér má sjá IVAR-hillur úr IKEA í íbúð í miðbæ Reykjavíkur sem nýlega birtist á fasteignavef mbl.is.

Auk þess átti að breyta herberginu í unglingaherbergi og það var ekki hægt að hafa bæði steríógræjur og Barbie-hús í sama rými. Barbie þurfti að víkja og mikil tómleikatilfinning gerði vart við sig. Það var þó ekki nefnt við nokkurn lifandi mann.

Þessi litla úr Árbænum tengir ekki við það að Barbie hafi eyðilagt sjálfsmynd hennar. Hún lærði hins vegar útsjónarsemi sem hefur komið sér vel á fullorðinsárum. Hún er enn þá að kaupa IVAR-hillur og mála þær og breyta gömlum fötum svo þau verði eins og ný. Henni finnst bleikur litur enn þá fallegur og mun líklega aldrei fara ofan af þeirri skoðun að hann passi við allt.

Leikkonan Margot Robbie fer með hlutverk Barbie í kvikmyndinni.
Leikkonan Margot Robbie fer með hlutverk Barbie í kvikmyndinni. AFP/Justin Tallis
Barbie hefur komið í ýmsum útgáfum í gegnum tíðina.
Barbie hefur komið í ýmsum útgáfum í gegnum tíðina. AFP/Fassbender
AFP/Fassbender
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda