„Sköllótta hóra“

Marta María Winkel Jónasdóttir.
Marta María Winkel Jónasdóttir. Ljósmynd/Kári Sverriss

Hár getur orðið að umræðuefni við ólíklegustu aðstæður. Þessar aðstæður eru oftast óskipulagðar og frekar tilviljanakenndar. Í vestrænni menningu þykir það nokkuð sjálfsagt að minnast á það við fólk ef hárið á því er óvenjugott og fallegt. Talað er um góða og slæma hárdaga en það þykir yfirleitt ekki viðeigandi að minnast á slæma hárdaga annarra. Manneskjan sjálf má minnast á það en oft er minni stemning fyrir áminningum um slakan hárþvott eða lélegar túperingar. Að minnast á að hárið á öðru fólki sé að þynnast er góð leið til að fá fólk upp á móti sér.

Á dögunum voru nokkrar drottningar staddar á sama stað á sama tíma í litlu fundarherbergi á hóteli í miðbæ Reykjavíkur. Þegar sú sem hér skrifar hrósaði einni úr hópnum fyrir glæsihár sitt þakkaði hún fyrir. Nokkrum augnablikum seinna ljóstraði hún upp leyndarmáli sínu, sem var þó ekkert hernaðarleyndarmál þegar upp var staðið, að þetta væri nú ekki hennar hár heldur aðkeypt. Hún hafði fest kaup á því á internetinu. Tækifærishárið var fest vandlega með skipulögðum hætti frá hnakka og upp úr. Það var svo listilega fest í aðalhárið með litlum kömbum að það hvarflaði ekki að neinum að lýjurnar væru óekta.

Þegar athygli á tækifærishárinu var vakin kom í ljós að önnur í hópnum var líka með aðkeyptar lýjur. Líka af internetinu. Þetta litla drottningaboð breyttist á svipstundu í lifandi hárauglýsingu þar sem öllu var ljóstrað upp. Stóru og smáu.

Það hefur fylgt manneskjunni lengi að vilja bæta ásjónu sína. Stundum er það hægt með taktvissri húðrútínu, vatnsdrykkju og meiri nætursvefni. Þegar það dugar ekki þá kemur tækifærishár eins og lottóvinningur inn í líf þunnhærðra. Tækifærishár minnir reyndar svolítið á tækifærishælana sem fengu fólk til að hlæja sig máttlaust yfir í grínþáttum í Sjónvarpinu í kringum 1988. Ef mig misminnir ekki kölluðust þættirnir Gættu að því hvað þú gerir maður en í þáttunum fór fólk í tækifærishæla yfir gúmmístígvél til þess að renna ekki í hálkunni. Það var ekki búið að finna upp snjallsíma þá og því fór fólk út undir bert loft til að skemmta sér. Það lá ekki bara uppi í rúmi með símann sinn.

Í sömu sjónvarpsþáttum varð líka uppi fótur og fit á sólbaðsstofu nokkurri þegar einn kúnninn brann til ösku því perurnar voru svo nýjar og sterkar. Það var ekki gert stórmál úr því. Öskunni var bara sópað saman á mettíma svo næsti maður gæti fengið nýjan húðlit – eða andlát.

Mér varð hugsað til tækifærishársins þegar vinkona mín og samstarfskona sagði mér frá atviki sem hún lenti einu sinni í. Þessi dásemdarvinkona er kannski ekki með þykkasta hár veraldar en hún er með hár. Brúnt stutt hár sem hún hugsar vel um og dekrar. Nokkru áður hafði þessi vinkona mín orðið vör við það að annarri konu væri illa við hana. Þær höfðu lent upp á kant eins og gerist í samfélagi manna. Nema hvað að þegar vinkona mín átti síst von á neinu þar sem hún stóð fyrir framan kaffivél nokkra þá vatt óvinkona hennar sér upp að henni og sagði: „Sköllótta hóra.“

Ef vinkona mín hefði mætt með tækifærishár í vinnuna þennan dag þá hefði þessum hroðalegu orðum aldrei verið hvíslað í eyra hennar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda