Svanakjóllinn sem Björk klæddist á Óskarsverðlaunahátíðinni árið 2001 er án efa einn umtalaðasti og þekktasti kjóll sem sést hefur á rauða dreglinum, fyrr og síðar.
Tónlistarkonan vakti mikla athygli fyrir kjólinn, sem hannaður var af Marjan Pejoski, á sínum tíma og nú yfir 20 árum síðar er kjóllinn enn að vekja verðskuldaða athygli og það hjá yngri kynslóðum.
Spænska söngkonan Rosalía, sem hefur á undanförnum árum átt vaxandi velgengni að fagna, er mikill aðdáandi Bjarkar og hefur lengi farið fögrum orðum um íslensku tónlistarkonuna, list hennar og menningarleg áhrif.
Sú mætti í eftirlíkingu af svanakjólnum í eitt stærsta Hollywood-partí hrekkjavökuhelgarinnar, haldið af fyrirsætunni Kendall Jenner á Château Marmont hótelinu í Los Angeles.
Rosalía var stórglæsileg í svanakjólnum en söngkonan stældi allt frá kjólnum að skónum sem Björk klæddist á Óskarsverðlaunahátíðinni og var einnig með svipaða hárgreiðslu.
Rosalía og Björk tilkynntu nýverið um tónlistarsamstarf en þær vinna nú hörðum höndum að laginu Oral sem Björk samdi fyrir 20 árum síðan.