Hin tvítuga Brynja Bjarnadóttir Anderiman er með skemmtilegan fatastíl og veit fátt skemmtilegra en að klæða sig upp, þá sérstaklega í kjóla, pils og hæla.
Brynja útskrifaðist af listabraut í Versló vorið 2022, en hún var dugleg að taka þátt í söngleikjum í skólanum og keppti einnig á söngvakeppni skólans, Vælinu. „Næst á dagskrá er vonandi leiklistarnám, en ég er að sækja um í Listaháskóla Íslands. Ég hef alltaf elskað búninga, glimmer og fjaðrir og þá sérstaklega að klæða mig upp og leika mismunandi karaktera. Mér fannst ótrúlega gaman að fá að taka þátt í söngleikjum í Versló og það var svo sannarlega nóg af glimmeri og fjöðrum þar!“ segir Brynja.
Frá útskrift hefur Brynja unnið við kvikmyndagerð, en hún vann við tökur á sjónvarpsþáttunum True Detective síðasta vetur og er nú að vinna við tökur á annarri þáttaröð af Svörtum söndum. Meðfram því kennir hún dans í Dansstúdíói World Class, en hún hefur verið í dansi og píanónámi frá unga aldri og er nú líka byrjuð í söngnámi.
Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?
„Úff, ég get verið alveg útum allt. Ég elska að koma fólki á óvart, er oft í einni flík eða með einn fylgihlut sem er meira „áberandi“. En fyrst og fremst myndi ég segja að ég sé eiginlega alltaf „overdressed“ – ég elska að klæða mig fínt, fara í kjóla, pils, hæla og pelsa.
Svo er ég líka mjög mikið fyrir Diesel og Levis buxurnar hans pabba sem ég annað hvort næli eða minnka í saumavélinni svo þær haldist uppi. Ég hef sjaldan verið jafn glöð og þegar pabbi fann fullan Ikea poka af gömlum buxum þegar hann átti þegar hann var á svipuðum aldri og ég, en þá var hann mikið í Spúútník eins og ég núna.“
„Ég kaupi mér mjög sjaldan ný föt, ef ég kaupi mér eitthvað þá er það oftast í „vintage“ búðum. En svo á ég ennþá svo mikið af gömlum fötum sem systir mín skildi eftir heima. Ef mig vantar kjól eða sætan topp fyrir kvöldið er ég líka byrjuð að grípa í saumavélina, en svo fæ ég auðvitað líka mikið lánað hjá vinkonum mínum.“
Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?
„Núna er orðið svolítið kalt úti þannig „go to“ dress hjá mér myndi vera víðar gallabuxur, síðerma bolur og pels. Kannski peysa líka og grifflur ef það er mjög kalt. Ef ég er í mjög kósí stuði hendi ég mér bara í jogging gallann frá Metta, uggs-skó og trefil.
Á sumrin elska ég að vera í sætum pilsum eða kjólum og dressa það svo niður með peysu, „plain“ bol eða einhverju svoleiðis.“
En þegar þú ferð eitthvað fínt?
„Ég fer allavega alltaf í hæla þegar ég fer eitthvað fínt. Ég hef oft sagt að ég hafi fæðst í hælum, en þegar ég var lítil var ég alltaf að fara inn í fataherbergi systur minnar að máta alla hælana hennar. Mínir uppáhaldshælaskór eru flestir úr Kaupfélaginu.
Hælaskór geta bara gert öll dress fín – meira að segja jogging galla! Svo finnst mér skartgripir líka gera mjög mikið, en mér finnst alltaf gaman að setja á mig fullt af skartgripum og þá sérstaklega hringi og vil helst hafa hring á öllum fingrunum.
En annars er það bara mismunandi og fer eftir veðri, hvernig stuði ég er í og hvert ég er að fara. Undanfarið er ég mikið í gallabuxum og svo sætum topp við ef það er frekar „casual“ fínt, en svo er ég ekki lengi að draga fram pilsið eða jafnvel kjólinn ef það er tilefni til.“
Hvert sækir þú tískuinnblástur?
„Stóra systir mín er klárlega fyrirmyndin mín, ég hef alltaf litið mjög mikið upp til hennar. Við erum samt með mjög ólíkan stíl en mér finnst allt flott sem hún klæðist og fæ oft lánað hjá henni.
Síðan starfa ég sem fyrirsæta hjá Ey Agency og hef fengið mikinn innblástur frá því að vera svolítið „inni í tískuheiminum“. Og auðvitað frá vinkonum mínum – ég fæ mikinn innblástur frá þeim dagsdaglega, þær eru allar svo ótrúlega flottar! Svo er ég byrjuð að skoða Pinterest líka mikið.“
Áttu þér uppáhaldsflíkur?
„Það er alltaf að breytast, en eins og er þá er það líklegast hvíti pelsinn sem ég var að kaupa mér, enda kominn vetur. En ein af mínum uppáhaldsflíkum var „vintage“ Levis X Coca-Cola gallajakki sem ég fékk í Spúútník, en hann ásamt mikið af uppáhaldsskónum mínum og fleiru urðu eftir í bílnum mínum sem var stolið í sumar ... mjög leiðinlegt. Ég var eiginlega bara leið yfir öllum fötunum sem voru í bílnum, gat þessi frábæri þjófur ekki allavega skilið fötin mín eftir!“
Áttu þér uppáhaldsskó og fylgihlut?
„Hvítu loðnu Moon Bootsin mín eru 100% efst á lista og svo Prada taskan sem systir mín gaf mér – hún mun örugglega biðja um hana aftur eftir þetta viðtal!“
Hvað er á óskalistanum þínum fyrir veturinn?
„Nýjir Moon Boots, annað hvort loðin eða bara hefðbundin svört og svo er ég lengi búin að óska mér Felds-loðhúfu. En það sem er fyrsta mál á dagskrá er að finna síða flotta leðurkápu eða trench-kápu – AndreA er reyndar með geggjaða trench-kápu.“
Hvernig málar þú þig dagsdaglega?
„Ég mála mig alls ekki dagsdaglega, en þá krulla ég augnhárin og greiði í gegnum augabrúnirnar. Á veturna nota ég Marc Inbane andlitsdropana eða smá sprey af brúnkukremi af og til, til að vera aðeins ferskari. Mér finnst ég ekkert þurfa að mála mig ef ég er smá „tönuð“ í andlitinu.“
En þegar þú ferð eitthvað fínt?
„Það er hins vegar annað mál – ég elska að mála mig þegar ég er að fara eitthvað fínt. Frá því ég var lítil hef ég haft mjög mikinn áhuga á förðun og það var það eina sem ég horfði á, til dæmis á Youtube. Svo finnst mér ég læra mjög mikið þegar ég hef setið fyrir í sýnikennslu í förðunarskólum.
Ég nota alltaf Hollywood Flawless filter frá Charlotte Tilbury, primer, hyljara og nota Kiko farðastifti til að skyggja andlitið. Svo blanda ég því öllu vel og set svo kremkinnalit frá Mac í ferskjulit. Svo er ég núna komin með smá eyeliner æði og set svo svartan augnblýant í vatnslínuna. Svo bretti ég auðvitað augnhárin, skelli á mig maskara og ef ég vil vera extra sæt set ég á mig stök augnhár. Svo er ég auðvitað alltaf með varablýant og gloss.“
Áttu þér uppáhaldssnyrtivörur?
„Hollywood Flawless Filter ljómagrunnurinn frá Charlotte Tilbury mun alltaf vera í snyrtitöskunni minni síðan Þuríður besta vinkona mín kynnti mig fyrir honum. Svo elska ég líka sólarpúðrið frá sama merki.“
Hvernig hugsar þú um húðina?
„Ég hugsa ágætlega um húðina. Mér finnst best fyrir mína húð að gera frekar minna heldur en meira og þrífa hana ekki alltof mikið. Ég til dæmis nota aðallega bara þvottapoka með vatni á morgnanna og stundum á kvöldin, svo set ég á mig andlitskrem.
Þegar ég þríf af mér farða nota ég alltaf farðahreinsi og svo andlitshreini og þvottapoka til að ná öllu alveg af. Svo set ég Exfoliate frá Paula's Choice og enda svo á andlitskreminu mínu frá Charlotte Tilbury. Af og til nota ég líka Resveratrol lift-serumið frá Caudalie og svo er maður auðvitað með maska kvöld af og til.
Ég hef alltaf verið mjög léleg að nota sólarvörn en er byrjuð að reyna muna það núna og vera dugleg að nota hana.“
Hvað er á óskalistanum í snyrtibudduna?
„Mig langar mjög mikið til að prófa þessa „frægu“ bronzing-dropa frá Drunk Elephant sem eru alltaf uppseldir. Svo langar mig eiginlega bara í allt frá Charlotte Tilbury, en ég elska vörurnar frá henni. Svo vantar mig líka gott setting-sprey og nýjan eyeliner.“