Ásdís Rán Gunnarsdóttir, fyrirsæta og þúsundþjalasmiður, er komin með nýja hárgreiðslu. Ásdís Rán sem er enn ljóshærð segir fólk vera forvitið um nýju greiðsluna. Hún hefur nú uppljóstraði því hvernig hún náði fram hárgreiðslunni.
„Það eru allir að missa sig yfir blessuðu klippingunni minni sem er algjörlega búin að slá öll met! Það rignir inn skilaboðum og fólk stoppar mig allstaðar,“ skrifar Ísdrottningin á Instagram sem er með stutt hár og topp.
„Sannleikurinn er að ég klippti mig sjálf þannig það á engin hárgreiðslumaður heiðurinn af henni,“ heldur hún áfram en viðurkennir að hún sé reyndar með bakgrunn í hárgreiðslu. Hún er auk þess andlit Redken á Íslandi.
Ásdís Rán er ekki óvön því að skipta um hárstíl á þessum árstíma. Fyrir tíu árum lét hún síðu lokkana fjúka.
„Það er bara komin tími til að breyta smá til og leyfa bombu-lokkunum að víkja fyrir klassískara lúkki þar sem ég er langt komin í að leggja fyrirsætu skóna á hilluna og byrjuð að einbeita mér að öðrum málum. Ég á yfir 30 forsíður, þúsundir mynda og sjónvarpsþætti að baki sem birst hafa víðsvegar um Evrópu þannig að ég er bara sátt með minn feril á þessu sviði svona samhliða móðurhlutverkinu. Ég er að sjálfsögðu ekki alveg hætt en já ég er að fara aðeins út í klassískari ímynd með breyttum áherslum,“ segir Ásdís Rán Gunnarsdóttir í viðtali við Smartland í desember árið 2013.