Tískuáhrifavaldurinn Stefán John Turner pælir mikið í tísku enda hans helsta áhugamál. Hann segir tískuna afslappaða um jólin en sjálfur ætlar hann að veðja á rúllukragapeysu. Stefán er hálfur Breti og segir ómissandi að fara til London í desember.
„Þegar ég var yngri spilaði ég fótbolta og leit mikið upp til Davids Beckhams. Þegar ég hætti í fótbolta fór ég að pæla meira í tískunni, tískuáhuginn kom því eiginlega frá fótboltanum og David Beckham,“ segir Stefán. Árið 2016 ætlaði hann að stofna fatamerki og til þess að auglýsa merkið stofnaði hann bloggsíðu. Ferillinn þróaðist út í það að hann byrjaði að taka myndir og búa til efni fyrir samfélagsmiðla.
„Ef maður fylgist með hvernig stelpurnar klæða sig þá eru 80 prósent líkur á að sú tíska komi árið eftir í herratískuna og ég dýrka það við tískuna. Mér finnst til dæmis litapalletturnar færast yfir í karlatískuna,“ segir Stefán.
Stefán segir jólatískuna skipta miklu máli og falleg rúllukragapeysa sé algjör skyldueign. Dökkgrænn og rauður eru hátíðarlitirnir.
„Það má vera í aðeins meiri kósí gír um jólin, í fínum buxum og rúllukragapeysu. Ef maður ætlar að kíkja eitthvað út hendir maður sér í síðan frakka og setur á sig trefil. Þá er maður í hlýjum fötum en um leið þægilegum. Svo er hægt að vera í skyrtu og með bindi í matarboði hjá ömmu. Þá hefur maður sig meira til.“
Hverju ætlar þú að klæðast á jólunum?
„Ég verð í peysu sem mér finnst mjög fín sem er frá Tommy Hilfiger. Ég verð í skyrtu undir og svörtum fínum buxum frá Cos. Buxurnar eru með svartri rönd og þær eru aðeins öðruvísi og brjóta dressið upp. Svo verð ég í „loafers“.“
Hvað með skart fyrir herra?
„Ég myndi vera með eitt armband og tvo til þrjá hringa – en ekki vera með of mikið heima fyrir,“ segir Stefán sem segir karlmenn verða æ duglegri að ganga með skart.
Er eitthvað sem má alls ekki í sparifatatískunni?
„Nei, ég vil leyfa allt. Maður á að fá að tjá sig eins og maður vill. Ef þú ert öruggur í fötunum þá lítur það vel út. Þetta hefur breyst mikið á síðustu árum.“
Hvað á að gefa fólki sem hefur áhuga á tísku í jólagjöf?
„Ég er heltekinn af stórum síðum kápum, það er hægt að stílisera þær svo vel. Þú getur verið í þeim hversdags í gallabuxum og hettupeysu en líka í fínum fötum. En kápan er alltaf aðalatriðið. Mér finnst þær góð kaup af því að þær eru bæði hlýjar og flottar. Rakspíri er alltaf góð gjöf. Ég er hrifinn af Valentino Born in Rome og Armani Gio perfume. Sign er með fullkomið skart sem ég nota daglega.“
Hvað gerirðu ef þú færð eitthvað ljótt í jólagjöf?
„Ég hef aldrei kippt mér upp við slíkt, mér finnst skrítið að skipta. Það er gaman að geta átt eitthvað sem maður hefur fengið að gjöf frá vinum eða fjölskyldu, en ef það er eitthvað sem passar ekki þá skipti ég. Maður á að vera sáttur við það sem maður fær.“
Faðir Stefáns er breskur en þrátt fyrir það voru jólahefðirnar sem hann ólst upp við ekki svo frábrugðnar þeim íslensku. Hann trúði þó bara á einn jólasvein. „Mér fannst mjög skrítið að trúa á 13 jólasveina. Ég fékk í skóinn og í sokkinn á jóladag. Þegar ég fór til Englands opnaði ég pakkana að morgn 25. desember í staðinn fyrir 24. Ég fer alltaf til Englands í desember; í hvert skipti sem ég fer til London líður mér eins og ég sé kominn heim og finnst jólin komin. Ég elska jólaskrautið, kaupa mér heitt kakó og vera svolítið menningarlegur,“ segir Stefán.
Hvað á að gera í London í desember?
„Fara í Hyde Park Winter Wonderland og kíkja á skautasvellið. Versla, hitta vini og bara vera smá menningarlegur.“
Hvar á að versla í London?
„Ég myndi alltaf versla í Soho-hverfinu. Þar ertu með skemmtilegar búðir, skemmtilegt umhverfi og kaffihús. Það er kúl staður.“
Áttu uppáhaldsbúð í London?
„Uppáhaldsbúðin mín er Aimé Leon Dore. Ég dýrka stílinn og merkin. Þetta er franskt nafn en gæinn sem stofnaði þetta bjó í Queens í New York. Hann tók gömlu New Balance-skóna og breytti þeim í samstarfi við New Balance og gerði flotta hluti. Hann er með rosalega kúl stíl. Þessi stíll kemur hægt og rólega til Íslands.“