Að undanförnu hefur svokallað „clean girl“ lúkk verið að gera allt vitlaust á samfélagsmiðlum. Lúkkið samanstendur af einfaldri og náttúrulegri förðun og stílhreinni hárgreiðslu.
Áhrifavaldurinn Leah Halton deildi nýverið myndbandi á Youtube-rás sinni þar sem hún sýndi hvernig hægt væri að ná fram lúkkinu á einfaldan máta.
Halton byrjar á því að setja hárið á sér upp í tagl með hárbursta sem hún lætur vatn renna á, en þannig nær hún auðveldlega að sleikja hárið upp sem er einmitt einkennandi fyrir „clean girl“ lúkkið. Því næst tekur hún „mousse“ og fer yfir hárið með vörunni, en hún segir það hjálpa til við að halda hárinu niðri.
Að því loknu tekur hún hárgel á maskaragreiðu og greiðir litlu hárin í kringum andlitið niður. Hún fer svo einu sinni enn yfir hárið með greiðunni áður en hún tekur aðra teygju og vefur taglinu í snúð.
Halton segir að falleg, náttúruleg og ljómandi húð sé einkennandi fyrir „clean girl“ lúkkið. Hún byrjar á því að nota nóg af góðu rakakrem á húðina og setur svo varaserum á varirnar.
Því næst setur hún Hollywood Flawless Filter-ljómagrunninn frá Charlotte Tilbury yfir allt andlitið. Hún segir ljómagrunninn bæði jafna út húðlitinn í andlitinu og gefa húðinni náttúrulegan ljóma. Að því loknu notar hún Magic Away Liquid-hyljarann frá Charlotte Tilbury undir augun, á ennið og kjálkann.
Til að skyggja andlitið notar Halton sama hyljara í dökkum lit, en hún mælir með því að fólk noti frekar kremvörur til að ná lúkkinu fram þar sem þær gefi oft náttúrulegri áferð. Hún notar svo Lip and Cheek Glow Balm-kremkinnalitinn frá Kylie Cosmetics á kinnarnar – í lok myndbandsins notar hún sömu vöru á varirnar og notar svo varablýant frá sama merki og varasalva frá Rhode Beauty.
Því næst mótar hún augabrúnirnar með Kybrow-augabrúnablýantinum frá Kylie Cosmetics og fer með augabrúnageli frá sama merki yfir þær.
Til þess að tryggja að hyljarinn haldist á allan daginn notar hún laust púður frá Givenchy undir augun og fer svo létt yfir allt andlitið með púðrinu og stórum bursta. Hún mótar svo nefið á sér með því að skyggja það, en til þess notar hún sólarpúður frá Kylie Cosmetics. Hún notar svo restina af sólarpúðrinu sem er á burstanum á augnlokin sem augnskugga.
Halton poppar svo lúkkið upp með ljómastifti frá Napoleon Perdis sem hún setur efst á kinnbeinin. Því næst er komið að augunum, en hún brettir augnhárin með augnhárabrettara og notar svo maskara frá Kylie Cosmetics. Að lokum notar hún „setting sprey“ frá Hourglass til að klára lúkkið.