„Ræktarfötin hvetja mig til þess að mæta í ræktina“

Hanesa Ósk stundar ræktina af kappi.
Hanesa Ósk stundar ræktina af kappi. Samsett mynd

Breiðholtsmærin Hanesa Ósk Þórsdóttir er geislandi og kraftmikil ung kona. Hún er forfallinn tískuunnandi sem leggur mikið upp úr fallegum klæðnaði og vandar fatavalið hvort það er í skólann, vinnuna eða ræktina. 

Hanesa, sú eina sem ber hið fallega nafn hér á landi, stundar nám í kennarafræðum við Háskóla Íslands og hefur ómældan áhuga á heilsueflandi lífsstíl, en þegar hún er ekki í skóla eða vinnu er hana einna oftast að finna í ræktinni. 

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?

„Fatastíllinn minn er fjölbreyttur en ég set þægindi ávallt í fyrsta sæti. Mér líður best í fötum sem klæða líkama minn vel og kýs ég því oftast aðsniðin föt sem sýna línurnar. Ég er með breiðar mjaðmir og lítið mitti og vil að fötin falli vel að líkamanum á öllum svæðum. 

Þú finnur mig mjög reglulega í pleðri, ég er mikill aðdáandi pleðurs. Mitt mottó er: „Pleður gleður.“

Hanesa Ósk elskar pleður.
Hanesa Ósk elskar pleður. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?

„Það er mjög misjafnt en ég hef gaman af því að klæða mig í liti. Ég elska þægilegar buxur og „oversized“ hettupeysur, sérstaklega á þessum árstíma, en góður jakki skiptir mig sömuleiðis miklu máli. Svo elska ég strigaskó og á stórt og mikið safn, litríkir Air Force eru í uppáhaldi, alla daga.

Ég er með ólæknandi sjúkdóm, Lipedema, sem lýsir sér þannig að fitufrumur safnast upp í kekkjum víðsvegar um líkamann og þess vegna finnst mér mikilvægt að líða vel í því sem ég klæðist, öllum stundum. Ég fæ reglulega athugasemdir og spurningar um það hvernig ég þori að vera í litríkum fatnaði en það lætur mér líða betur og er vonandi bara hvetjandi fyrir aðra.“

Áttu uppáhaldslit?

„Á virkum dögum held ég mig oftast við jarðtóna en ég elska liti og reyni því að prófa mig áfram með litrófið. Ég er alls ekki feimin þegar kemur að því að fara út fyrir rammann enda finnur maður ekki hið eina rétta án þess að prófa. 

Appalsínugulur er litatónn sem klæðir mig einstaklega vel en dökkgrænn og svartur eru svona mínir „go to“ litir.“

Hún er ófeimin að klæðast björtum litum.
Hún er ófeimin að klæðast björtum litum. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig klæðir þú þig í ræktina?

„Þegar ég fer í ræktina þá líður mér stundum eins og ég sé á leiðinni að ganga tískupallinn, en ég á rosalega mikið af ræktarfötum og sýni nýtt „dress“ reglulega, það er eiginlega vandræðalegt. Ég klæði mig þægilega og á til að mynda samfesting frá fyrirtækinu Stax í þremur mismunandi litum bara af því að hann er aðsniðinn og sexí, þó ég segi sjálf frá.“

Skipta ræktarföt þig miklu máli?

„Ræktarfötin hvetja mig til þess að mæta í ræktina. Þau lýsa persónuleikanum mínum og sýna hvað ég er opin og ófeimin við að láta í mér heyra. Það að líða vel í ræktarfötunum gerir ótrúlega mikið fyrir mann og mér finnst skipta máli að líða vel í ræktinni. Að klæðast skemmtilegum og fallegum ræktarfötum gerir það, að minnsta kosti fyrir mig.“

Hanesa Ósk mætir í ræktina á hverjum degi.
Hanesa Ósk mætir í ræktina á hverjum degi. Ljósmynd/Aðsend

Ertu sjálfsörugg í ræktarfatnaði?

„Hér áður fyrr á árunum átti ég mjög erfitt með að klæðast stuttermabolum. Ég hugsaði með mér: „Ætli einhver sé að stara? Hvernig eru handleggirnir á mér í bolnum? Er ég of áberandi?“ en um leið og ég bældi niður þær hugsanir þá byrjaði ég að blómstra. 

Í dag skiptir það mig engu máli hvort einhver sé að horfa eða ekki, við erum öll í ræktinni til að rækta okkur sjálf og eigum þar af leiðandi bara að hugsa um okkur og enga annan. Sjálfsöryggið kom um leið og ég leyfði mér að vera ég sjálf og í þeim fötum sem mig langaði að klæðast.“

Hvar finnur þú bestu ræktarfötin?

„Sem ung kona með breiðar mjaðmir þá getur verið mjög erfitt að finna föt, sérstaklega föt sem eru töff og í tísku. Ég panta mikið erlendis frá, sérstaklega íþróttafötin mín, en á einnig mikið af góðum íþróttafötum frá M Fitness og Define the line. 

Þegar ég panta erlendis frá þá er ég rosalega dugleg að skoða Instagram-síður hjá áhrifavöldum með svipaða líkamsbyggingu og ég, sem dæmi get ég nefnt Jazmin Margalef og Ariella Nyssa. Ég hef verið dugleg að panta frá bæði Stax og Doyoueven, sem eru áströlsk fyrirtæki, og einnig Gymshark og Women's Best. Ég heillast mjög af fyrirtækjum sem kynna vörurnar með fyrirsætum sem maður getur speglað sig í.“

Hanesa Ósk á ræktarföt í öllum regnboganslitum.
Hanesa Ósk á ræktarföt í öllum regnboganslitum. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhalds íþróttafatamerki?

„Þau eru nokkur en ef ég hugsa um erlent íþróttafatamerki þá er það Stax, allan daginn. Ég þori varla að viðurkenni hversu miklum pening ég hef eytt í æfingaföt hjá því. Stax er með sturlaða útsölu einu sinni á ári og ég reyni að vera dugleg og nýta hana vel, en í hvert sinn sem ég klæðist ræktarfötum frá þessu merki þá fæ ég hrós, enda stundum eins og gangandi auglýsing fyrir fyrirtækið.

Þegar kemur að fyrirtækjum hérna heima þá eru það klárlega M Fitness og Define The Line. Það skiptir mig mestu máli að fyrirtækin sem ég versla við passi upp á fjölbreytileikann og bjóði upp á stærðir fyrir alla líkama. Það er ekkert leiðinlegra en að sjá fallega flík og stærsta stærðin kemur í L og þetta á einnig við um auglýsingaherferðir, það á að sýna alla líkama.“

Hvernig líður þér best í ræktinni?

„Mér líður best þegar ég er með „playlistann“ minn í botni, klædd í uppáhalds samfestinginn minn frá Stax, sem er opinn í bakið, og bara í ryþmanum. Ég pæli í engum nema sjálfri mér og eigin markmiðum en reyni að sjálfsögðu að vera peppandi þegar ég mæti í hóptíma.

Það að finnast maður velkominn og öruggur er svo mikilvægt. Það er ekkert sem fær mig til að líða betu en það að klára æfingu vel sveitt og enn peppaðri en þegar ég gekk inn.“

Hanesa Ósk er á heimavelli í ræktinni.
Hanesa Ósk er á heimavelli í ræktinni. Ljósmynd/Aðsend

Af hverju ferð þú í ræktina?

„Ræktin er griðarstaðurinn minn. Ég er í skóla og vinnu og hausinn því oft á billjón. Þegar hlutirnir verða yfirþyrmandi þá er ekkert betra en að hoppa á æfingu, sérstaklega í Hot Fit eða Power Fit hjá Jenný minni, og fá þessa hvatningu sem er ávallt í tímunum hennar. Ræktin gerir svo mikið fyrir líkama og sál. Þetta hljómar svo klisjukennt, en ég gæti ekki ímyndað mér að stunda ekki ræktina. Ef það er eitthvað sem ég passa að hafa tíma fyrir þá er það ræktin, hún hefur aðstoðað mig við að byggja upp sjálfstraustið.“

Hefur ræktin alltaf verið hluti af þinni vikulegu/daglegu rútínu?

„Já, ég gef mér alltaf góðan tíma fyrir ræktina á hverjum degi. Mér finnst ég geisla eftir æfingu og þegar kórónuveirufaraldurinn geisaði yfir gerði ég mér grein fyrir því hvað ræktin var mikilvægur partur af daglegri rútínu minni.“

Hvað reynir þú að forðast í lífinu?

„Kannski smá klisjukennt en neikvæðni. Það er ekkert verra en eitrað fólk og það sem heldur viljandi aftur af þér. Ég forðast líka drama og slúður, ef þú tileinkar þér slæma ávana þá endurspeglar það persónu þína og það er orka sem ég vil ekki gefa frá mér, neikvæð orka smitar út frá sér.

Ég vil hlæja, njóta og hafa gaman. Ég er með mjög smitandi hlátur sem ég skammaðist mín lengi fyrir en í dag leyfi ég mér að hlæja hátt. Hlátur lengir lífið gott fólk.“

Hanesa Ósk heldur í jákvæðni.
Hanesa Ósk heldur í jákvæðni. Ljósmynd/Aðsend

Hvað gerir þú til þess að rækta þig?

„Ég er dugleg að skrifa niður hvernig mér líður, borða hollan mat, eða velja hollari kostinn. Og eins og ég hef sagt þá stunda ég líkamsrækt af kappi, þegar ég lyfti lóðum þá finnst mér ég óstöðvandi og fyllist sjálfstrausti sem ég vissi vart að ég byggi yfir.

Að gera mig fína og fara út að borða með góðum hópi vina er eitthvað sem ég elska að gera. Þegar tími og tækifæri gefast þá elska ég að ferðast. Ég er nýkomin heim frá London en næst liggur leið mín til Tenerife þar sem ég ætla að eyða jólunum í sólinni og leyfa litríka fatastílnum að skína.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda