Hönnuðurinn Silvia Venturini Fendi segir í viðtali við Times að Anna prinsessa sé með smekklegri konum í heiminum í dag. Hún nái að halda í kvenleika sinn á sama tíma og hún klæðist einkennisbúningi. Fendi hannaði nýjustu karlalínu Fendi með Önnu prinsessu í huga.
„Ég varð ástfangin af stílnum hennar. Hún er sú allra fágaðasta í heiminum í dag. Þegar ég sá hana klæðast einkennisbúningi við krýninguna þá fannst mér hún afar falleg. Þá datt mér í hug að skapa þessa herralínu,“ segir Fendi.
„Líf hennar er utan sviðsljóssins. Hún er eins konar andhetja í tískunni. Það er eitthvað sem er mjög nútímalegt og flott. Þessi fatalína snýr að því að skapa flíkur sem endast og verður ekki hent. Eitthvað sem er mjög í anda Önnu.“
Anna prinsessa er oft í sömu fötunum þegar hún kemur fram og neitar að fá föt gefins.
„Manni verður hugsað til þess hversu mikið af fötum enda á ruslahaugum. Við þurfum efni sem geta enst lengur en eina árstíð,“ segir Anna.
Anna prinsessa er þekkt fyrir lítið umstang hvað föt varðar. Hún gefur höllinni aldrei upplýsingar um hvaðan fötin koma. Hún sér engan tilgang í því enda oftast áratugagamlar flíkur.
„Ég olli miklum vonbrigðum sem ung prinsessa. Það er svo ópraktískt að lifa lífinu í hvítum síðkjól og með kórónu á höfði,“ sagði Anna prinsessa eitt sinn.